[tekið af síðu HR:]
Íslandsmeistaramót ÍSÍ 20. - 22. apríl
Skráning á íslandsmeistaramótið í hnefaleikum á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hefur farið fram úr björtustu vonum og eru nú um 45 þátttakendur skráðir til leiks í 11 flokkum. Mótið mun því standa yfir í 3 daga, fimmtudaginn 20. til laugardagsins 22. apríl 2006.
Dagana 20. og 21. apríl munu þátttakendur keppa um þátttökurétt á úrslitakvöldinu, laugardaginn 22. apríl. Undanúrslitin munu fara fram seinni partinn í húsnæði HR í Faxafeni 8. Ekki verður selt inn á undanúrslitin og eru því allir velkomnir að styðja sína menn. Nánari tímasetning og fyrirkomulag í undanúrslitum verður auglýst síðar.
Laugardaginn 22. apríl verður svo úrslitakvöldið þar sem 11 íslandsmeistarar í hnefaleikum verða krýndir. Keppnin mun fara fram í Kaplakrika og opnar húsið kl. 19:00 en bardagarnir byrja stundvíslega kl. 20:00. Mikið verður lagt í keppnina með tilheyrandi skemmtiatriðum ásamt því að Sýn mun sýna úrslitin í beinni.
Miðar á úrslitakvöldið verða til sölu hjá hnefaleikafélögunum í næstu viku og í undankeppninni 20. og 21. apríl en einnig verður hægt að kaupa miða við innganginn á laugardaginn. Miðaverð er eins og hér segir;
Fullorðnir 1.500
Börn undir 12 ára 500
Hópar, 20 miðar eða fleiri 1.000
Verður þetta fyrsta íslandsmeistaramótið í yfir 50 ár og er búist við mikilli baráttu enda allir bestu hnefaleikamenn/-konur landsins að keppa.