Joe Luis
Fæddur:13. maí 1914
Látinn:12. apríl 1981
Þjóðerni:Bandarískur
Gerðist atvinnuboxari árið 1934.
Heimsmeistari í þungavigt: 1937-1949.
Sigrar:68. Ósigrar:3. Jafntefli:0. Sigrar á rotthöggi:54.
Joe Luis, sem var skírður Joseph Luis Barrow og kallaður ,, Brown Bomber'', er einn þriggja stærstu boxara sögunnar. Sumir segja hann þann besta. Ferill hans sem atvinnuboxari spannar frá 1934 til 1951, en á þeim tíma vann hann tuttugu og sex titilbardaga, sem er einstakt í þungavigtinni og verður sennilega aldrei slegið.
Louis kom fram á sjónarsviðið þegar bandarískt þjóðfélag var enn að jafna sig eftir kreppuna miklu. Hann var fyrsti svarti heimsmeistarinn síðan Jack Johnson var og hét og sá fyrsti sem hvítir menn og svartir sameinuðust um. Louis gerði það sem honum var sagt að gera utan hringsins en innan kaðlanna var hann sinn eigin herra. Enginn hnefaleikamaður í veröldinni átti möguleika í Louis á velimegtarárum hans.
Joe Luis varð heimsmeistari í þungavigt árið 1937 þegar hann sló James J. Braddock í gólfið í áttundu lotu. Eftir það varði ,,Brúni-Bombarinn'' titilinn til ársins 1949. Þá hætti hann - á toppnum, eða öllu heldur tók sér hvíld í eitt ár. en bág fjárhagstaða hans og skuldir við skattayfirvöld ollu því að hann sneri tvisvar til baka í hringinn, með litlum sóma þó. Í fyrra sinnið freistaði hann þess að ná þungavigtartitlinum af Ezzard Charles, en tapaði á stigum í fimmtán lotu bardaga. Í síðara skiptið varð hann að athlægi gegn rísandi stjörnu, Rocky Marciano, sem barði hann í orðsins fyllstu merkingu út fyrir kaðlana og endaði sá slagur í áttundu lotu - Rocky í vil. Þetta voru sorgleg endalok á glæstum ferli Louis. Var haft á orði, að hann hafði mátt þola fleiri högg í þessum tveimur síðustu viðureignum sínum en samtals í öllum bardögunum frá 1934 til 1949.
Voru þeir þó margir.
Frægustu bardagar Joe Luis voru án efa ,,tvöföld'' slagsmál hans við þjóðverjann Max Schemeling, heimsmeistara í þungavigt 1930-1932. Þeir höfðu att kappi árið 1936 í titillausum bardaga og hafði Schemiling þá betur. Tveimur árum síðar var aftur komið að hnefaleik þeirra; í þetta skiptið titilbardaga og hafði Luis heiðurinn að verja. Adolf nokkur Hitler nasistaforingo, var þá kominn til valda í Þýskalandi og skipun hans til Schmeling var skýr: ,, Sigraðu svarta svínið og sýndu heiminum yfirburði hvíta kynstofnsins.'' Franklin D. Roosevelt Bandríkjaforseti lét ekki sitt eftir liggja, kallaði Louis til sín og sagðist búast við sigri hans.
Keppnin á milli Louis og Schmeling var í raun hápólitísk og öll heimsbyggðin fylgdist með þegar þessir boxarar mættust í hringnum. Leikar fóru í stuttu máli þannig að Louis rotaði Schmeling í fyrstu lotu. Þjóðverjinn átti aldrei von. Með þessum sigri skráði Louis nafn sitt á blöð sögunnar og lifir hann svo lengi sem heimurinn. Joe Luis var einstakur og gætir áhrifa hans enn þann dag í dag.