Jones og Hopkins sigra Bæði Roy Jones Jr. og Bernard Hopkins sigruðu stórt í nótt í frekar óvanalegri útsendingu þarsem barist var á tveimur stöðum og eiginlega var skiptst á bardögum.
Ég mun lýsa spjaldinu eins og um eitt show hafi verið að ræða, annað ruglar lesendur og mig bara í ríminu.

**Aðalbardagarnir**

[Bernard Hopkins TKO-10 Carl Daniels]
Bernard Hopkins hafði yfirburði í þessum bardaga og aðlagaðist vel vandræðalegum stíl Daniels sem er örvhentur, Hopkins byrjaði sterkur og vann jafnvel meira á eftir því sem leið á bardagann og notaði skrokkhöggin vel til að mylja niður vilja og þrek Daniels og endaði það með því að Daniels hætti á kollinum eftir 10 lotu.
Bardaginn var ekki neitt ofboðslega skemmtilegur, ég stóð sjálfan mig meira að segja tvisvar að verki við að skipta yfir á auglýsingar á CNN í leiðinlegustu lotunum og breitir það því ekki að Hopkins gerði það sem þurfti að gera!



[Roy Jones Jr. KO-7 Glen Kelly]
Þá hófst flugeldasýningin!
Eftir að hafa séð mis metnaðargjarna bardaga hjá Jones uppá síkastið vissi ég ekki alveg við hverju ég ætti að búast en hvað svo sem það var sem ég bjóst við var það ekki þetta.
Jones var ótrúlegur! Það er hægt að segja ýmislegt um mótstöðuna en það breitir því ekki að taktarnir sem hann sýndi voru hreint og beint ótrúlegir. Kelly fór niður þrisvar, einu sinni með vinstri upphöggi í þriðju lotu, eitt svakalegt skrokkhögg í 6. lotu og svo endaði hann bardagann með ótrúlegu sirkushöggi í 7. lotu þarsem Jones stóð fyrir framan Kelly með báðar hendur fyrir aftan bak eins og hani og beið þartil Kelly var kominn nógu nálægt og negldi hann síðan beint fyrir aftan eyrað og rotaði hann.
Hugsast getur að Jones mæti Hopkins á næstunni en það ræðst allt á því hvort þeir nái fjárhagslegu samkomulagi. Jones vill 60/40 af hagnaðinum en Hopkins sættir sig ekki við það. Við skulum vona að annaðhvor gefi eftir!

** Undirspjaldið **

[Winky Wright TKO-5 Jason Papillion]
Því miður var ekki sýnt nema síðustu sekúndurnar af þessum bardaga en mér skilst af því sem ég hef lesið og séð að Wright hafi sýnt fádæma þrautsegju og styrk í þessum bardaga og stöðvað Papillion á eitursnörpum skrokkhöggum.



[Clifford Etienne TKO-7 Gabe Brown]
Clifford Etienne hélt áfram kombakki sínu með sigri á hinum frjálslega vaxna Gabe Brown.
Etienne átti í hinu mesta barsli með þetta 150 kílóa flykki sem stóð eins og múrsteinsveggur fyrir framan Etienne og át högg frá honum eins og þrefalda ostborgara. Þegar síga fór á seinni hluta bardagans var Brown farinn að blása allsvakalega og högg hanns voru orðin og einhverjar vindmyllublöðkur sem blökuðu í kringum höfuðið á Etienne en þó stóð hann enn í fæturna. Svipur Etienne sagði allt sem segja þurfti um þennan bardaga “Hver setti þetta ófellanlega kjötstykki fyrir framan mig ?!?”.
Í lok 7. lotu höfðu hornamenn Brown fengið nóg og hentu handklæðinu inn og stoppuðu þarmeð bardagann, ég geri ráð fyrir að það hafi nú aðallega verið útaf því að Brown virtist vera maður sem flokkast undir “hjartaáfalls áhættuhóp” og ætti ekkert að hreifa sig neitt meira en fram í ísskáp og aftur uppí sófa hvað þá í atvinnumanna hnefaleikahring!



Þetta var alveg stórskemmtilegt kvöld og var Roy Jones Jr. hápunkturinn! Bara ef hann gæti barist við sterkari móstpyrnu eða a.m.k. verið með svona flugeldasýningu í hvert skipti sem hann fer á móti einhverjum svona mannlegum æfingapúða. Það veðrur spennandi að sjá hvort hann endi á móti Hopkins en við skulum ekki gera okkur of miklar væntingar.