Hvatningakerfi fyrir börn ( 8-12 ára )
Hjá Hnefaleikafélaginu Æsir fá börnin sem æfa sérstaka stundartöflu sem við köllum Kinitro, Kinitro þýðir hvatning á grísku. Kinitro taflan er sérstaklega ætluð til hvatningar til þess að mæta vel og stunda tímana. Þegar mætt er á æfingu er merkt við þann dag með límmiða. Verðlaunaðir eru þeir sem hafa mætt á allar æfingarnar í hverjum mánuði fyrir sig. Við teljum að Kinitro taflan hjálpi börnum meðal annars að byggja upp metnað og samviskusemi. Einnig teljum við uppbyggjandi fyrir börn að vera verðlaunuð fyrir að standa sig vel. Hvatningarkerfi eru sálfræðilega viðurkennt og notuð t.d. af skólum og öðrum stofnunum til þess að styrkja góða hegðun hjá börnum. Þetta hefur reynst vel og vonumst við til þess að gera fleiri útfæringar á töflunni í framtíðinni og við viljum virkja foreldrana með okkur í þessu.
-Umsögn foreldra
Við undirrituð erum foreldrar 8 ára gutta sem heitir Bjarni Þór.
Hann er greindur ofvirkur og með athyglisbrest.
Eftir að hafa kynnt okkur Kinitro hvatningarkerfið sem Vilhjálmur fer
eftir við þjálfun barna létum við slag standa og skráðum Bjarna Þór í
þjálfun hjá HFÆ.
Bjarni hóf þjálfun í febrúar síðastliðnum. Strax eftir fyrstu tímana
urðum við vör við breytta hegðun.
Honum leið betur í skólanum og þar af leiðandi gekk honum betur með
námið. Í rauninni gengur honum betur í öllu sem hann tekur sér fyrir
hendur.
Sjálfsagi hans jókst og honum gekk betur að hafa hemil á skapi sínu
en reiðiköst voru nánast daglegt brauð áður.
Bjarni Þór hefur notið þjálfunarinnar frá fyrsta tíma og verður hinn
ergilegasti ef æfing dettur út.
Við foreldrar Bjarna Þórs mælum hiklaust með Hnefaleikafélagi Ása.
Með vinsemd og virðingu,
Kristinn Þór Bjarnason
Linda Björk Ólafsdóttir
Fengum við einnig sálfræðinginn Ágústínu Thorgilsson til þess að segja nokkur orð um hvatningarkerfi sem og þessi sem við notum hjá HFÆ.
-Hvað eru hvatningarkerfi? eftir Ágústínu Thorgilsson sálfræðing
Hvatningarkerfi eru umbun fyrir góða hegðun og styrkir hana. Stjörnur sem hvatningarkerfi gefa auðvelda sýn yfir hvert markmiðið er hverju sinni og fær barnið til að keppa við sjálft sig um að fá sem flestar stjörnur. Síðan lærir barnið að það fær verðlaun í lok mánaðar nái það öllum stjörnum, en það er mjög árangursrík leið til að þjálfa með barninu sjálfsaga og einbeitingu. Með þessu er verið að kenna barninu leiðir til styrkja sig og efla og setja sér markmið, en allt eru þetta mikilvægir þættir fyrir lífsleikni.
Meira á www.hnefaleikar.is