George Foreman fæddist 10. janúar 1949 í Marshall í Texas. Hann átti stuttan áhugamannaferil og barðist aðeins 25 sinnum, sigraði 22 sinnum og tapaði 3 sinnum. Eftir 18 áhugamannabardaga fór hann á ólympíuleikana í Mexíkó 1968 og gerði sér lítið fyrir og sigraði í þungavigt. Eftir úrslitabardagann gekk hann um hringinn og veifaði litlum bandarískum fána og mynd af því birtist í flestum dagblöðum í bandaríkjunum daginn eftir. Hann hóf að berjast sem atvinnumaður árið eftir og barðist sinn fyrsta atvinnubardaga 23. júní gegn Don Mogard og sigraði á rothöggi í 3. lotu. Hann barðist ákaft næstu árin og vann flesta bardaga sína á rothöggi. Hann sigraði menn á borð við Goerge Chuvali, Chuck Wepner og Gregorio Manuel Peralta en það voru menn sem fengu einhvern tíman að berjast um heimsmeistaratitil (Chuvali og Wepner við Muhammad Ali um þungavigtartitilinn, Peralta við Willie Pastrano um létt-þungavigtartitilinn).
Eftir að hafa barist linnulaust í rúm 3 ár fékk George loks að berjast um heimsmeistaratitilinn í þungavigt. Þá hafði hann barist 37 bardaga og unnið þá alla, þar af 34 á rothöggi og 32 rothögg komu í 1. – 5. lotu. Þáverandi heimsmeistari var Joe Frazier, en hann hafði verið meistari í 3 ár og var að verja titilinn í 5. sinn. Auk þess hafði hann orðið fyrsti maðurinn til að sigra Muhammad Ali. Búist var við spennandi bardaga þar sem báðir menn voru ósigraðir (Foreman í 37 bardögum en Frazier í 29) og með nokkuð háa rothöggatíðni. Flestir höfðu þó veðjað á að meistarinn næði að verja titil sinn, þrátt fyrir að Foreman var stærri, sterkari og hafði barist oftar en Frazier. Bardaginn fór fram þjóðarleikvanginum í Kingston í Jamaíka þann 22. janúar 1973. Foreman tókst að blása á allar hrakspár með því að slá Frazier niður 6 sinnum á fimm óg hálfri mínútu og var bardaginn stöðvaður þegar hálf mínúta var eftir af annari lotu. Þar með var George Foreman orðinn heimsmeistari í þungavigt. Fyrsta titilvörn hans var gegn Jose Roman sem var reyndur boxari frá Púertó Ríkó. Sá bardagi fór fram 1. september sama ár og Foreman hafði unnið titilinn í Tókýó í Japan. Foreman lenti ekki í neinum vandræðum og var búinn að rota Roman eftir tvær mínútur í fyrstu lotu. Næsta titilvörn var gegn mun sterkari boxara, Ken Norton, sem hafði nýlega sigrað Muhammad Ali. Sá bardagi fór fram í Caracas í Venesúela þann 26. mars 1974. Norton entist öllu lengur heldur en Roman en sá bardagi var stöðvaður eftir tvær mínútur í annari lotu þegar Norton fór niður í þriðja sinn. Næsti bardagi Foremans var sá frægasti sem hann barðist á ferlinum. Það var “the Rumble in the Jungle” sem fram fór í Kinshasa, sem er höfuðborgin í Zaír, sem í dag heitir Kongó. Mótherji Foremans var hinn goðsagnakenndi Muhammad Ali (og ekki þarf nú að fara yfir hans afrekaskrá).
Bardaginn á milli Foreman og Ali átti að fara fram þann 24. september 1974 á Stade du 20 mai í Kinshasa. En stuttu áður en bardaginn átti að fara fram lenti Foreman í óhappi á æfingu. Hann fékk olnbogann á æfingafélaga sínum í augað og við það opnaðist heljarinnar skurður. Vegna þess þurfti að fresta bardaganum þangað til 30. október. Ali lýsti því stöðugt yfir að hann myndi dansa og að hann myndi fara létt með að sigra Foreman. En annað kom á daginn. Ali reyndi eftir bestu getu að forðast þung högg Foremans í 1. lotunni með sinni alkunnu fótafimi. En í annari lotu var öllum dansi lokið og Ali fór notaði “rope-a-dope” taktíkina næstu loturnar á eftir. Foreman lamdi af öllum krafti í skrokkinn á Ali en hvorki gekk né rak hjá honum að ná Ali niður. Í fimmtu lotu var Foreman farinn að þreytast og Ali fór að ná nokkrum góðum höggum á meistarann. og þegar hálf mínúta var eftir af áttundu lotu var Foreman orðinn svo þreyttur að það var enginn kraftur í höggunum hans en Ali átti en nóg eftir og hóf að negla í hausinn á Foreman. Það endaði með því að meistarinn féll til jarðar og var talinn út. Þar með hafði hann tapað titlinum sem hann hafði unnið tæpum tveimur árum áður. Eftir þetta gekk Foreman í gegnum þunglyndi í rúmt ár.
Hann boxaði því ekkert árið 1975 en var mættur aftur í hringinn árið 1976. Þá sigraði hann Ron Lyle í góðum bardaga á rothöggi í 4. lotu þann 24. janúar. Hann barðist þrjá aðra bardaga þetta árið og sigraði þá alla á rothöggi; gegn Dino Denis og Scott LeDoux, auk þess sem hann barðist aftur vð Joe Frazier. Árið 1977 hélt hann sigurgöngunni áfram með sigri á Pedro Agosto en tapaði síðan fyrir Jimmy Young á stigum í Púertó Ríkó 17. mars sama ár. Eftir það varð hann fyrir trúarlegri reynslu í búningsklefanum og tilkynnti stuttu síðar að hann væri hættur að stunda hnefaleika. Fljótlega eftir bardagann byrjaði hann að starfa sem predikari.