Box og snjór.
Ég var heima hjá mér á mánudaginn síðasta og var að horfa á sjónvarpið, þar var verið að sýna frá því sem ég kalla hættulega íþrótt. NEI ekki box, heldur snjósleða “kross” eða eitthvað svoleiðis. Ég vil benda þeim sem eru alltaf að tala um skaðsemi hnefaleika á að útvega sér upptöku af þessum þætti sem var á RÚV. Ég hef ekki horft mikið á snjósleðaíþróttir og það gæti verið algjör tilviljun að í þau 3 skipti sem ég hef það gert hef ég séð 3 menn slasast mismikið. Í umræddum þætti stukku 2 þessarra manna og lentu þannig að annar þeirra rak höfuðið svo heiftarlega í að hann rétt gat skjögrað út af, en hinn skall á sleðanum í lendingunni, og er sleðinn loks stöðvaðist liðaðist aumingja maðurinn niður af sleðanum og gat með herkjum lyft hendinni máttleysislega upp til að biðja um hjálp. En 3 dæmið sá ég í fyrra og ég fæ hroll við það eitt að hugsa um það, sá ökumaður lenti það illa að í stað þess að hnéð beygðist aftur (eins og flest hné jú gera) fór það út á hlið,og ekkert lítið. Ekki misskilja mig, ég er hlinntur snjósleðaíþróttinni og eflaust eru þessir óheppnu menn það líka. Það er nefnilega mín skoðun að menn meigi stunda sína uppáhaldsíþrótt og stofna sjálfum sér í eins mikla hættu og þeir vilja á meðan það bitnar ekki á öðrum.