Það styttist í að alþingismenn kjósi um lögleiðingu áhugamannahnefaleika og mig langar að koma eftirfarandi á framfæri í von um að það skipti máli.
Oftar enn ekki hef ég heyrt andstæðinga áhugamannahnefaleika tala um að hér sé ekki um íþrótt að ræða og að villimennska sé allsráðandi í áhugamannahnefaleikum.
Það er þeirra skoðun og ég virði það, en skoðun er eitt og rök eru annað. Smekkur manna á íþróttum má ekki ráða því hvort áhugamannahnefaleikar verði áfram bannaðir.
Sú hræðsla sem virðist halda andstæðingum áhugamannahnefaleika í heljar greipum myndi hverfa eins og hendi væri veifað, ef þeir myndu hverfa frá fyrir fram mynduðum skoðunum og kynna sér áhugamannahnefaleika með opnum hug.
Það er rangt að hrópa “villimennska, limlestingar og ofbeldi” í sömu andrá og áhugamannahnefaleikar eru nefndir, en sumir eru jú bara þannig gerðir að þeir sjá bara það sem þeir vilja sjá. Þeir sem kafa til botns komast að því að þarna er á ferðinni holl hreyfing sem veitir útrás sem margir hefðu gott af.
Það hefur oft verið talað um að áhugamannahnefaleikar séu griðastaður fyrir ungt fólk sem á við félagsleg vandamál að stríða. Krakkar sem hafa lent í útistöðum við lögin, lent í vandræðum með áfengi og fíkniefni, krakkar með hegðunar vandamál og þau sem hafa orðið út undan í skólanum og félagslífinu þar í kring.
Þessir krakkar þurfa eitthvað öðruvísi og ég hef trú á að áhugamannahnefaleikar geti hjálpað mörgum aftur inn á beinu brautina.
Hér á landi eru áhugamannahnefaleikar stundaðir í trássi við lög og miðað við það að íþróttin er bönnuð er ásóknin í greinina gífurleg og upp á síðkastið hefur ungum iðkendum, á aldrinum 10-14, fjölgað mikið. Þessir krakkar æfa með samþykki foreldra sinna og oftar en ekki fyrir tilstilli þeirra. Foreldrar virðast kunna að meta þá þjálfun og þann aga sem að áhugamannhnefaleikum fylgir og eru reiðubúin að skoða sjálf, um hvað æfingar á hnefaleikum snúast, áður en þau hrópa “villimennska, slagsmál og limlestingar”.
Þeir sem kunna hnefaleika vita að það þarf eitthvað mikið að ganga á til þess að menn slasist og ef æft er undir eftirliti hæfra þjálfara eru líkurnar á slysum þær sömu og í öllum öðrum íþróttagreinum.
Þess vegna skora ég á alþingismenn að kynna sér málið ítarlega, hætta að geta sér til um hvernig greinin er stunduð og setja sig í samband við þá sem stunda greinina til þess að sjá hvernig hún fer fram, og þá er ég ekki í vafa um að þeir muni leyfa áhugamannahnefaleika.
Baráttukveðjur ElDiablo