Hans hátign; þrítuga fitubolla Jú, hann vann seinasta bardagann. Á stigum. Manuel Calvo sem gæti örugglega trítlað um göturnar í heimabæ sínum á Spáni án þess að nokkur tæki eftir honum.
En þar áður tapaði hann.
Gæinn sem hoppaði og skoppaði, teygði sig og reygði eins og naðra. Setti upp brosið sem vísaði bara á gott fyrir hann – vont fyrir hinn. Gaf tuttugu högg fyrir hvert sem hann fékk á sig. Þessi snilli sem gat verið svo brútal í hlébarðabuxunum sínum.
Þangað til hann mætti Marco Antonio Barrera í Las Vegas þann 7. apríl 2001.
Hann kemur annað slagið við í líkamsræktarstöð í Sheffield, boxar af og til í gamni en það er sko ekkert sem bendir til að hann mæti aftur í hringinn.
Hans hátign er orðinn býsna mjúkur. Eiginlega bara feitur. Feitur og hvorki meira né minna en þrítugur.

Til hamingju með þrítugsafmælið herra Litli Prins. Það var fyrir viku, fimmtudaginn 12. febrúar.

Riath, bróðir Naseems, hefur verið umbinn hans undanfarin ár. Hann vill meina að kannski eigi Prinsinn eftir að keppa. Hann sé kannski ekki alveg í nógu góðri æfingu en aldrei að segja aldrei. Riath segir bróður sinn með tvo þjálfara og tveir aðrir séu í skoðun, hafi eitthvað verið að segja pilti til. Hann sé þó allavega að halda sér eitthvað við en fyrrum þjálfari Prinsins, hann Brendan Ingle segir hinsvegar að það séu jafnar líkur á því að hann boxi aftur og hann muni trítla um á sólinni!
Þá held ég að hann boxi eiginlega ekki aftur.
Margir vilja meina að það hafi farið að ganga verr þegar leiðir þeirra skildu árið 1998.

Já, prinsinn var yndislega skemmtilegur á að horfa. Hann var orðinn verulega vinsæll 21. árs gamall og væn tekjulind. Hann var flottur, strákurinn. Með hendurnar niðri og hreyfði sig eins og eiturslanga en þegar hendurnar fóru á loft þá var það hratt – og höggið fast.
Hann niðurlægði algjöra toppboxara eins og Vincenzo Belcastro og Freddy Cruz á leið sinni á toppinn og ímyndaði sér að hann væri Muhammed Ali þegar hann æfði. Eða þá Sugar Ray Robinson þegar hann komst í ham.
Man alltaf þegar hann fór til Bandaríkjanna og slóst við Kevin Kelley í Madison Square Garden í desember ´97.
Prinsinn spurður eftir bardaga (sem var á Sýn) hvort hann fílaði sig ekki eins og hann væri partíljón, svona hress og bara ósigrandi.
Hann brosti sínu glæfraglotti en Kelley brosti bara líka og sagði; “vertu velkominn til Bandaríkjanna. Ég buffa þig því ég er partybraker”.
Svo börðust þeir og allir tóku andköf þegar prinsinn lá með andlitið oní gólf. En hann kom til baka og rotaði Kelley og var orðinn aðal showbiz kallinn alltíeinu.
Man að ég elskaði að hata hann á þessum tíma, þoldi ekki hrokann en dáðist auðvitað að þessari ótrúlegu færni og fílaði sosum alveg hvað kaninn þoldi ekki montið í honum!
En Prinsinn yfirgaf Brendan Ingle og syni hans tvo, þá John og Dominic og mætti Barrera með Oscar Suarez í horninu sínu ásamt Manny Steward þjálfara Lennox Lewis.
Man bara hvað Barrera var kúl. Stóð bara í miðjum hringnum og buffaði Prinsinn trekk í trekk. Það vantaði bara einhvernveginn snerpuna, gleðina og fílinginn í Prinsinn sem tapaði aldeilis sanngjarnt á stigum.
Rúmu ári síðar var hann nánast púaður niður eftir að hafa rétt marið sigur á Spánverjanum Calvo í London Arena.

Prins Naseed Hamed er giftur og mikill fjölskyldumaður og á fullt af vinum. T.d. Bubba Morthens og Ómar Ragnarson! Þeir reyndar hittu hann úti og gáfu honum mynd eftir Tolla… Annars á hann á svo sannarlega nóg af peningum og miklu meira en það og þarf svosem ekkert að sanna neitt fyrir okkur sem horfðum á hann berjast. Hann æfir eins og áður sagði annað slagið en hefur ekki keppt í næstum tvö ár og keppir varla aftur – eða hvað???


Ég er enginn brjálaður boxfan en horfi nú oft og fylgist þokkalega með. Það eru alltaf smáklausur um boxið í ensku pressunni og var ein ágæt grein um daginn í Sunday Telegraph um prinsinn. Þetta er unnið svona upp úr því sem ég hef lesið að undanförnu ( og auðvitað því sem ég man og hef séð sjálfur í imbanum). – gong-