Mér hefur fundist framvinda síðastliðinna atburða í sambandi við boxið vera nokkuð athyglisverð og hún vekur mig til umhugsunar hvort fjölmiðlamenn og aðrir málglaðir einstaklingar séu að vinna vinnuna sína eftir bestu getu.
Fíkniefnamálið sem við öll ættum að þekkja var blásið út í fjölmiðlum sem mikið reiðarslag fyrir hnefaleikaíþróttina vegna þess að tveir menn klæddir einkennisbúningum sem hnefaleikamenn höfðu áður notað voru stöðvaðir með fíkniefni á leið til landsins og því var kastað fram að annar þeirra væri í fullu starfi sem hnefaleikaþjálfari, sem reyndist vera úr lausu lofti gripið.
Gefum okkur það að ég væri fyrrverandi starfsmaður íslensk verktakafyrirtækis og ætti jakka sem væri merktur fyrirtækinu.
Ég mundi ákveða að smygla ólöglegum varningi inn til landsins í jakkanum og væri tekinn, mundi ég grafa undan trausti fyrirtækisins og mundu menn almennt hætta viðskiptum við fyrirtækið á þeim forsendum að fyrrverandi starfsmaður hafi smyglað fíkniefnum? Ég stórlega efa það.
“Fundum við fölnað laufblað eitt og fordæmdum allan skóginn”
Þetta er máltæki sem er mikill sannleikur í og segir mér það að þó að ég finni eitt fölnað laufblað þá þurfi ekki að vera að allur skógurinn sé fölnaður og ljótur. Sannleikurinn er sá að ég hef tekið þátt í starfi hnefaleikafélags og kynnst hinum félögunum og get sagt af eigin reynslu að þar eru flestir einstaklingar sem eru að vinna íþróttinni og allri þjóðinni í hag og þó að tvö fölnuð laufblöð misnoti peysur tengdar hnefaleikum til svona ógæfuverka get ég ekki fordæmt alla hina heilbrigðu einstaklingana sem vinna íþróttinni til góða og á réttum forsendum. Þeir einstaklingar eiga hrós skilið og ég vona svo sannarlega að þetta mál, sem kemur boxi engann veginn við, dragi ekki kraftinn úr þeim og ég vona að þið haldið áfram að gera góða hluti.
Hitt málið er slysið í Vestmannaeyjum, frá fyrsta fréttaflutningi af því máli, hafði ég á tilfinningunni að fréttamenn væru ekki hlutlausir í málinu og væru tilbúnir að úthrópa hnefaleikaíþróttina sem stórhættulegan hlut sem fólki ætti ekki að leyfast að stunda. Ég tók aldrei eftir þeim möguleika að einstaklingurinn sem varð fyrir heilablæðingunni hafi kannski verið með veika æð í höfðinu eða að blæðingin hafi getað orsakast af einhverjum öðrum ástæðum en að hún hafi verið bein afleiðing af hnefaleikaiðkun. Fréttaflutningur af málinu virtist miða að því að koma þungu höggi á íþróttina burt séð frá staðreyndum og það virkaði sem bensín á eld andstæðinga íþróttarinnar sem skriðu hver úr sinni holu og voru tilbúnir að kasta steinum í íþróttina.
Ég átti í bréfaskriftum við alþingismenn þegar frumvarp um lögleiðingu áhugamannahnefaleika lá fyrir og ég bauð nokkrum þeirra að hjálpa þeim að afla fræðilegra upplýsinga um hnefaleika til þess að þeir gætu tekið afstöðu á réttum forsendum, en enginn þáði boðið hugsanlega vegna þess að sumir hverjir voru búnir að ákveða að íþróttin væri hættuleg og rökstuddu það með því að hún væri bara hættuleg. Ég hef rætt við mikið af fólki á þeim tíma frá því að frumvarpið var lagt fyrir og flestir andstæðingar okkar sem ég hef rætt við hafa myndað sér skoðun án þess að hafa minnstu hugmynd um hvað íþróttin er og um hvað hún snýst.
Ég bið ykkur bæði fjölmiðlamenn og andstæðinga hnefaleika að kynna ykkur íþróttina og staðreyndir áður en þið kastið fleiri steinum í áttina að okkur. Fordómar byggjast oftast á vanþekkingu.
Ég vil enda þetta á að senda þeim tveim sem öttu kappi í umræddri viðureign baráttukveðjur og ég óska þeim báðum góðs bata, já báðum vegna þess að svona atburðir hafa oft í för með sér sálræna erfiðleika og í leiðinni senda öllum áhugamönnum hnefaleika baráttukveðjur. Snúum bökum saman. Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér.
Kær Boxkveðja
Arnar F