Aðalumræðuefnið í fjölmiðlum núna er hvort banna eigi boxið eða ekki en engin ALMENNILEG rök eru fyrir því að banna algjörlega box á Íslandi. Þeir sem æfa íþróttina vita nákvæmlega út í hvað þeir eru að hætta sér og þekkja áhættuna sem fylgir því. Boxið snýst um svo margt annað en bara það að veltast um í hring og reyna að lemja hinn aðilann. Margir sem æft hafa íþróttina í ár eða meira hafa ekki einu sinni stigið fæti inn í hringinn - það er algjörlega undir hverjum og einum komið hvort hann vildi boxa í hringnum eða ekki. Enginn er neyddur í eitt né neitt og ætti því að leyfa þann valmöguleika að æfa box fyrir þá sem vilja - það er þeirra val og kemur utanaðkomandi einstaklingum ekkert við.
Jú, það kemur fyrir að einhver meiðist það mikið að hann þurfi læknishjálp en eins og oft hefur komið fram eru alvarlegir áverkar þar sem sjúkraflug eða spítalavist þarfnast mjög sjaldgæf og ef einhver slasast óþarflega mikið er ávallt læknir á staðnum sem ætti að geta séð um það. Samkvæmt Gauja í kvöld hafa verið haldnar 80 keppnir og sýningar með að meðaltali 8 bardögum (16 manns) og er þetta fyrsta alvarlega tilvikið = 0,078% líkur á alvarlegum áverka - þetta er staðreynd og óþarfi að vera að rökræða það frekar, 1+1 er samasem 2 sama hvað oft það er rætt!
Það að reyna að koma með rök fyrir hvað skattgreiðendur lendi hrykalega illa í öllum þeim gífurlega kostnaði sem fylgir allt of hárri tíðni alvarlegra slysa í hnefaleikum getur engan vegin staðist - sama hversu oft talað er um það breytir það ekki þeim tölum á kostnaði sem reynslan hefur sýnt (og þá er ég ekki að tala um hnefaleika og aðrar íþróttir á Íslandi heldur í öðrum löndum sem hafa margra ártuga reynslu af hvoru tveggja).
Ef allur kostnaður sem ríkið þyrfti að greiða sökum íþróttaiðkunar væri tekinn saman kæmi í ljós að hluti hnefaleika er hverfandi - bæði því þeir eru minna stundaðir en aðrar íþróttir sökum fordóma sumra einstaklinga og vegna lágrar tíðni alvarlegra meiðsla. Ef svo allir þeir einstaklingar sem æfðu hnefaleika færu að æfa aðrar íþróttir og sumir skemma í sér hnén í fótbolta myndi það þýða gífurlegan kostnað ríkis í endalausar skoðanir og aðgerðir á hnjám (sem eru mjög dýrar) og ekki bara næstu 5 árin heldur það sem eftir er af lífi einstaklingsins!! Óbeint er því hægt að segja að það sé möguleiki (ekki endilega staðreynd) að það sé kostnaðarsamara fyrir ríkið að hafa þessa einstaklinga í fótbolta heldur en í hnefaleikum. Er þá ekki bara í lagi að leyfa þeim sem vilja boxa að lemja hvorn annan hægri vinstri??? Ekki bitnar það á skattgreiðendum og ekki hefur það áhrif á heilastarfsemi annarra í kringum þá…
Útkoma: Hnefaleikar eru áhættusamar og jú snúast um að koma höggi á næsta aðila. Kostnaður miðað við aðrar íþróttir er varla teljandi og bitnar því ekki á almennum borgara. Þeir sem stunda hnefaleika gera sér grein fyrir hættunni en ákveða að taka áhættuna. Það ætti því að vera frjálst að æfa þá íþrótt sem hver og einn vill - óþarfi að banna hana því hún bitnar ekki á neinum nema einstaklingnum í hringnum sem fór þangað af sjálfstæðum vilja.
Gjöriði svo vel að sýna þá tillitsemi að leyfa þeim sem vilja að stunda þá íþrótt sem þeir kjósa, og ef þú vilt enn halda fram að þetta sé kostnaðarsamt - berstu þá frekar fyrir því að boxáhugamenn kaupi sér sérstakar tryggingar - óþarfi að hefta okkar frelsi til þeirrar iðkunar sem við kjósum!
Takk fyrir, Axis