Ég verð að segja, að eins ánægður og ég var þegar box var leyft á Íslandi, þá grunaði mig að það kæmi upp aðstaða eins og er í dag. Þ.e.a.s. að andstæðingar boxins myndu fá byr undir báða vængi útaf einhverjum meiðslum í tengslum við box. Ég tel að ástæðan fyrir þessu er að íslenska boxhreyfingin fór vitlausa leið í að fá íþróttina leyfða.
Ég vill fyrst taka fram að ég er ekki að reyna að vera með skítkast, það hafa allir hérna sama lokatakmarkið, bara mismunandi hugmyndir um hvernig er best að komast þangað.
Nú þegar það er komið á hreint, þá minni ég á að þegar boxið var leyft, voru allir að hamra á því hvað boxið væri skemmtileg og heilsusamleg, lítil slysatíðni og lítil hætta á alvarlegum meiðslum. Þó að þetta sé allt vissulega satt, þá verðum við samt að átta á okkur að þetta er íþrótt sem gengur út á það að ná höggi í höfuð andstæðingsins, þannig sama hvað það eru margar öryggisráðstafanir, þá er alltaf viss hætta sem fylgir þessu (rétt eins og með margar aðrar íþróttir).
Það sem ég tel að hefði átt að vera aðal baráttumálið er þetta: Í boxi eru tveir fullorðnir menn (konur eru líka menn þannig ekki vera með einhver leiðindi útaf þessu ;), sem hafa samþykkt að taka þátt í hnefaleikakeppni, báðir eru orðnir sjálfráða og geta löglega tekið ákvarðanir um eigið líf, og ættu því að geta tekið ákvörðun um hvort þeir setji eigin líkama í hættu eða ekki. Ríkið á ekki okkar líkama og sál og getur ekki stjórnað hvað við gerum við hann og hvort við hættum á að meiða hann (svo lengi sem við erum ekki að skaða aðra að sjálfsögðu). Í staðin fyrir að prédika fyrir fólki að það sé ekkert móralískt rangt við að boxa, ætti frekar að tala um að það skipti bara engu máli hvort að öðrum finnist það í lagi að boxa eða ekki, það er réttur hvers og eins að taka þessa ákvörðun að boxa, og ef öðrum líkar það ekki þá verður bara að hafa það. Þeir geta þá sjálfir tekið þá ákvörðun að horfa ekki á það, og að boxa ekki sjálfir.
Bottomline er að siðferðiskennd stjórnvalda á ekki að hafa áhrif á það hvaða íþróttir við æfum, svo lengi sem að 2 einstaklingar eru að keppa sem eru báðir með fullu viti, eru lögráða og vita af áhættunum og taka ákvörðun um að boxa miðað við það. Þá er ekkert að því að boxa.