Richard Steele hættur.
Hinn góðkunni og nauðasköllótti dómari, Richard Steele, hefur ákveðið að leggja skóna og þverslaufuna góðu á hilluna og hætta að dæma, eftir 30 ára feril sem einn virtasti, og jafnframt umdeildasti dómari hnefaleikasögunnar. Steele, 57 ára, hefur dæmt 167 titilbardaga á ferlinum, þar á meðal bardaga “Sugar” Ray Leonard og Tommy “The Hitman” Hearns, Marvin Hagler og Ray Leonard, og síðast en ekki síst bardaga Julio Sesar Chavez og Meldrick Taylor, þar sem Chavez sló Taylor niður og Steele stoppaði bardagann þegar tvær sekúndur voru eftir af bardaganum. Taylor var þá mörgum stigum yfir hjá öllum dómurum og hann varð aldrei samur eftir tapið. En þó að þessi umdeildi bardagi eigi alltaf eftir að hanga yfir Steele, segist hann þó enn vera sannfærður um að stoppið hafi verið réttmætt. Steele var kosinn besti starfandi dómarinn af The Ring á síðasta ári og óskum við honum alls hins besta og þökkum honum fyrir hans innlegg í hnefaleikasöguna.