Þetta er litil ritgerð um konunginn sjalfan Muhammad Ali.


Það hafa allir heyrt um hann. Flestir hafa séð honum bregða fyrir. Margir muna eftir tilfinningaþrungnu setningarathöfninni á Ólympíuleikunum árið 1996 í Atalanta þegar hann tendraði sjálfan Ólympíueldinn. Þetta er að sjálfsögðu hnefaleikagoðsögnin Muhammad Ali, eða Cassius Clay eins og hann hét áður fyrr. En þó eru ekki margir sem kannast vel við lífshlaup þessa merka manns. Hann var valinn einn af hundrað mestu snillingum síðustu aldar og vann heimsmeistaratignina í þungavigt oftar en nokkur maður hefur gert. Í þessari ritsmíð ætlum við að reyna að varpa ljósi á þennan orðheppna, sjálfsörugga en þó oft umdeilda mann.


<center>Æska og uppvaxtarár</center>


Þann 17. janúar árið 1942 fæddist Cassius Marcellus Clay. Hann var sonur hjónanna Odessu Grandy Clay og Cassius Marcellus Clay og eins og glöggir menn sjá var hann skírður í höfuðið á föður sínum. Saman bjó þessi fjölskylda í fjögurra herbergja íbúð við Grand Avenue í Louisville, Kentucky. Foreldrar Cassiusar voru baptistar og ólu son sinn upp við þann sið, sem kenndi strangan aga og kurteisi. Æska Cassiusar var ekki frábrugðin æsku annarra blökkubarna í Bandaríkjunum á 6. áratugnum. Hann lék sér við önnur börn en þó mest við bróðir sinn. Athyglisvert er að líta á það að einn af leikjunum sem þeir bræðurnir stunduðu var að bróðir hans kastaði steinum í átt að Cassiusi sem átti að reyna að forða sér. Hafa margir litið á þennan leik sem eina af ástæðum lipurleika og viðbragðsflýti hans seinna meir. Þessi lipri og hreifanlegi stíll Cassiusar átti eftir að koma honum á topp hnefaleikaheimsins þegar fram liðu stundir.


Þegar Cassius var 12 ára gamall gerðist atburður í lífi hans sem átti eftir að hafa mikil áhrif á kappann. Hjólinu hans var stolið af honum og Cassius kærði glæpinn fyrir lögreglustjóra að nafni Joe Martin. Martin tók við kærunni en minnti Cassius á að hann þyrfti að læra að verja sig til að koma í veg fyrir að atburður sem þessi endurtæki sig. En Martin var ekki bara lögreglustjóri, heldur var hann einnig unglingaþjálfari í hnefaleikum. Cassius fór að orðum Martins og fór að æfa í líkamsræktarstöð Martins og fóru oftar en ekki heilu dagarnir í æfingar. Þetta skilaði sér í því að stráksi fór að stækka og þyngjast mikið og sá Joe Martin að þarna væri hæfileikapiltur á ferð. Cassius byrjaði ungur að árum að keppa í hnefaleikum og hóf hann ferilinn á áhugamannamótum í grenndinni. Kona lögreglustjórans keyrði piltana, sem flestir komu úr fremur fátækum fjölskyldum, á milli æfinga- og keppnisstaða og hún minnist þess að á meðan aðrir piltar í hópnum voru að keppast um kvenhylli þá sat Cassius inni og las í biblíunni og æfði flétturnar sínar.


Ekki var Cassius Clay mikill námsmaður þar sem hann vildi fremur einbeita sér að hnefaleikunum og fór hann mjög ungur í atvinnumennsku. Þó gekk hann í Louisville Central High School. Fljótlega varð hann orðinn þekktur í skólanum sem hæfileikaríkur hnefaleikamaður en þó bar minna á námssviðinu. Minntist einn af fyrrum kennurum Cassiusar á, að á honum sæist að hann væri í skóla einungis vegna þess að hann þyrfti að vera þar. Þessi sami kennari minntist líka á það síðar, þegar Cassius hafði lagt hnefaleikaheiminn að fótum sér, að leiðinlegt hafi verið að gáfur hans hefðu ekki fengið að njóta sín á skólagöngu hans. Af samnemendum sínum var Cassius þekktur sem fremur undarlegur drengur. Hann drakk mjólk með hvítlauk, smakkaði ekki gos og keppti við skólarútuna um hvor væri á undan í skólann. Ekki var Cassius heldur talinn mikill kvennabósi því sagan segir að hann hafi verið mjög feiminn, sérstaklega við stelpur, og að liðið hafi yfir hann þegar hann kyssti stúlku í fyrsta sinn. Þó urðu skólafélagar hans fremur smeykir við hann eftir að hann gerðist áhugamannaboxari. Ein af stelpunum minnist þess að hann hafi stundum opnað allar hurðir og alla glugga upp á gátt í matsalnum svo öllum varð hrollkalt, en þó þorði enginn að gera neitt. Þetta þótti Cassiusi mjög fyndið.


Cassius varð snemma vel ágengt í hnefaleikunum og til að mynda vann hann sinn fysta titil á áhugamannamóti aðeins 14 ára gamall. Stærsta afrekið á áhugamannaferli hans var þó þegar hann sigraði á Ólympíuleikunum í Róm 1960. Keppti hann þá í léttþungavigt. Ekki á Cassius þó þau verðlaun er hann fékk, því hann fleygði þeim í Ohio ána eftir að hafa verið meinaður aðgangur að matsölustað vegna húðlitar síns. Var þetta í fyrsta sinn sem Cassius Clay sýndi hinn mikla uppreisnaranda sem í honum bjó. Á Ólympíuleikunum varð hann mjög vinsæll meðal fréttamanna og var hann tíður gestur á forsíðum blaða allt til ársins 1981 þegar hann hætti endanlega keppni. Cassius var alltaf mjög yfirlýsingaglaður og sagði meðal annars eftirfarandi setningu í viðtali vegna Ólympíuleikanna í Róm, “Ég er fallegastur og verð það alltaf, það er enginn nógu snöggur til að koma á mig höggi. Svart er fallegt.” Vegna þessara ummæla var hann oft nefndur “Louisville lip” eða Louisville vörin. Áhugamannaferli Cassiusar lauk með 100 sigrum í 108 bardögum.



<center>Atvinnumennskan</center>


Eftir frábæran árangur sem áhugamaður ákvað Cassius Clay að gerast atvinnumaður. Fékk hann fjárhagsaðstoð frá 10 vellauðugum mönnum úr heimabæ sínum en gerðu þeir samning við hann sem hljóðaði upp á það að þeir fengju helming heildartekna hans gegn því að þeir sæju honum fyrir framfærslueyri. Þeir réðu honum einnig þjálfara en sá hét Angelo Dundee og er oft talinn vera einn merkari hnefaleikaþjálfari frá upphafi. Einnig eignaðist Cassius sinn fyrsta bíl við undirskrift samningsins en það var appelsínugulur Cadillac sem þótti hin mesta glæsikerra.


29. október rann stóra stundin upp. Fyrsti atvinnumannabardagi hans varð að veruleika og varð fyrsta “fórnarlamb” hans maður að nafni Tunney Hunsaker. Var bardaginn 6 lotur og sigraði Cassius á stigum. Þar með hafði hann stimplað sig inn í heim atvinnumennskunnar. Hann færði með sér nýja strauma inn í íþróttina, dansaði í kringum andstæðingana og sýndi ótrúlega lipurð. Svo þegar tímasetninin var rétt kom hann með geysiþung högg. Höfðu margir gárungar á orði að ekki liði á löngu þar til þessi “fáránlegi” stíll hætti að virka og Cassius myndi ekki endast lengi. En Cassius gerði eins og honum einum var lagið, þaggaði niður í efasemda mönnum og vann alla 16 bardaga sína á árunum 1960-1963. Hann reyndi einnig fyrir sér á öðrum sviðum, svo sem útgáfu á plötu, sem ekki þótti merkileg en engu að síðus skýrði hann plötuna “The Greatest” og átti þetta eftir að festast við Cassius. Hann fór mikinn á þessum tíma og kom meðal annars fram á ljóðasamkomum, en þótti hann efnilegt skáld og sýndi það sig í hinum ýmsu ljóðum sem hann samdi um andstæðinga sína. (Nokkur þeirra ljóða er að finna aftast í ritgerðinni.) Ekki er annað hægt að sega en að Cassius hafi verið fullur sjálfstrausts í þessum ljóðasmíðum og í raun alltaf en það sýnir sig t.d. í eftirfarandi vísu

“London Bridge is falling down
so is Cooper in London town”

Þetta samdi Cassius fyrir bardaga við Henry Cooper sem háður var í London árið 1963. Reyndar mátti ekki miklu muna að hann hefði tapað bardaganum því Cooper náði inn þungu höggi í 4. lotu, en Cassius lét það ekki á sig fá heldur reis upp og rotaði Cooper.


Sumarið 1963 fékk Cassius í fyrsta skipti á ferlinum tækifæri á að skora á heimsmeistara í þungavigt. Sá var Sonny Liston og var ákveðið að bardaginn skyldi háður þann 25. febrúar árið 1964. Cassius hóf snemma undirbúning fyrir bardagann, þó ekki á hefðbundinn hátt heldur fjárfesti hann í rútu sem hann skreytti ýmsum slagorðum sem beint var gegn Liston. Flest þessara slagorða voru niðrandi í garð Listons og ber þar til að mynda að nefna eitt þeirra sem hljómaði svo, “Heimsmeistarinn á ekki að vera ljótur”. Þessi aðferð til að ná vinsældum heppnaðist hjá Cassiusi og kom hann fram í öllum helstu spjallþáttum Bandaríkjanna. Sjálfstraust Cassiusar kom einnig vel í ljós þegar hann hitti Bítlana árið 1964 en það fyrsta sem han sagði við þá var “Hello there, Beatles. We ought to do some roadshows together. We´ll get rich” eða Sælir Bítlar, við ættum að setja upp ferðasýningu saman. Við yrðum ríkir. Cassius hafði heyrt að Liston hræddist geðsjúklina ógurlega og ákvað því að færa sér það í nyt. Hann lét öllum illum látum þegar keppendur voru vigtaðir um morguninn á keppnisdeginum, en þegar í hringinn var komið var enginn maður jafnrólegur og hann. Hann beitti sinni skemmtilegu tækni og var einfaldlega miklu betri en Liston. Bardaginn var blásinn af í 7. lotu þegar Liston neitaði að koma út úr horninu sínu.


Þar með var Cassius Clay orðinn heimsmeistari í þungavigt í fyrsta sinn en ekki það síðasta. Skömmu eftir þennan bardaga lýsti Cassius því yfir að hann væri meðlimur í hreyfingu er kallaðist “Black Muslims”. Í þessari hreyfingu var að finna menn eins og Malcolm X. Í kjölfar þessarar ákvörðunar gerðist tvennt sem átti eftir að hafa mikil áhrif á Cassius, í fyrsta lagi að að hann breytti nafni sínu í Muhammad Ali og í öðru lagi það að annað hnefaleikasambandið sem viðurkenndi Ali sem heimsmeistara svipti hann titlinum. En Ali gafst ekki upp frekar en fyrri daginn. Hann náði titlinum aftur og varði svo báða titlana í 9 bardögum á árunum 1965-1967. Í einum af þeim bardögum, gegn Floyd Patterson árið 1965, gerðist eitt af eftirminnilegustu atvikum Ali. Hann spurði í sífellu “hvað er nafnið mitt” fyrir hverja höggafléttu en það gerði hann því Patterson neitaði að kalla hann annað en Cassius.


Íslamstrú Ali var eitt af því sem skipti miklu máli í lífi hans og var aðalþátturinn í því að hann neitaði að fara til Víetnam en það hefði brotið gegn reglum íslam því þær segja að ekki megi deyða mann. Yfirvöld í Bandaríkjunum tóku afstöðu hans til stríðsins illa og settu hann í keppnisbann frá árunum 1967-1970. Ekki lét hann þetta á sig fá heldur kom tvíelfdur til leiks á ný árið 1970 og sigraði í tveimur fyrstu bardögunum gegn minni spámönnum. Í kjölfar þeirra sigra fékk hann tækifæri á að keppa um heimsmeistaratitilinn á nýjan leik, í þetta sinn gegn Joe Frazier. Bardaginn var auglýstur sem “Bardagi aldarinnar” og margir töldu að hann hafi verið það. Reyndist þetta vera fyrsti bardaginn sem Ali tapaði á ferlinum. Ali hélt þó í sjálfstraustið og bar höfuðið hátt og sagði til að mynda við blaðamenn “Það er aðeins sannur meistari sem sigrar mig.” Eftir tapið gegn Frazier fékk hann ekki aftur tækifæri til að keppa um heimsmeistaratitilinn fyrr en 30. október árið 1974. Nú var andstæðingurinn George Foreman og fór bardaginn fram í höfuðborg Zaire, Kinshasa. Þessi bardagi er einn af þeim þekktustu allra tíma og er gjarnan kallaður “Rumble in the Jungle”. Fyrir keppninga bar mikið á Ali í Zaire og varð hann að einskonar guð í Afríku. Foreman gerði hins vegar lítið annað en að afla sér óvinsælda. Þrátt fyrir vinsældir Ali var Foreman talinn sigurstranglegri þar sem hann var tröll að vexti og á mikilli sigurbraut. Ali hélt þó þessu óbilandi sjálfstrausti og einbeitti sér að því að finna leið til að sigra risann. Það tókst og náði Ali að rota Foreman í 8. lotu. Í bardaganum hafði Ali verið að gera grín að Foreman og spurði hann eftir eitt þyngsta höggið sem Foreman náið “Er þetta allt sem þú kannt? Ef svo er þá ertu búinn að vera í 8. lotu.” Þessi spá Ali rættist og hann endurheimti titlana sína. Frá þessum bardaga og allt fram til ársins 1978 hélt hann titlinum sínum og varði hann alls 10 sinnum. En í bardaga gegn Leon Spinks þann 15. febrúar 1978 tapaði hann og var það einungis í þriðja sinn sem hann tapaði bardaga. En hann var ekki á því að gefast upp og vann titilinn aftur í svokölluðum “rematch” við Spinks. Þannig varð hann sá fyrsti til að vinna titilinn þrisvar sinnum. Árið 1979 ákvað Ali að hætta að keppa í atvinnuhnefaleikum og gaf frá sér titilinn. Því miður ákvað Ali að snúa aftur tvisvar sinnum en hann tapaði þeim bardögum báðum og það illa. Þeim fyrri gegn Larry Holmes árið 1980 og þeim seinni gegn Trevor Berbick árið 1981. Sagan segir að Don King, umboðsmaður flestu stóru hnefaleikakappanna, hafi dregið Ali inn í bardagann gegn Trever þrátt fyrir að hann hafi vitað að hann væri með Parkinson veikina. Talið er að þeir tveir bardagar hafi haft mikil áhrif á veikina.


Ferill Muhammad Ali sem atvinnuhnefaleikamaður lauk því á miður glæsilega hátt með þessum tveimur töpum en þrátt fyrir þau er ekki hægt að sega annað en ferill hans í heild sinni er stórkostlegur á að líta. 56 bardagar sem 51 endaði með sigri Ali, þar af 31 með rothöggi og einungis 5 töp.


<center>Einkalífið og efri árin</center>


Muhammad Ali naut á sínu blómaskeiði mikillar kvenhylli. Hann giftist fjórum konum. Þeirri fyrstu var hann giftur í 2 ár, þeirri næstu í 10 ár, þeirri þriðju í 9 ár og í dag er hann giftur Veronicu Porche Ali. Hann eignaðist átta börn og ættleiddi einn son. Á hann því sjö dætur og tvo syni. Ali var eins og áður segir mjög yfirlýsingaglaður en þrátt fyrir hátt sjálfsálit er margt af því sem út úr honum kom mjög gáfulegt. Ali sagði t.d. að “þjónusta við aðra er það gjald sem við greiðum til þess að fá herbergi hér á jörðinni”. Eftir hnefaleikaferilinn flutti Ali ásamt 4. konu sinni Veronicu á bóndabæ í Berrien Springs, Michigan. Hann er sjálfsagt ekki í fjárhagsvandræðum því hann var að fá dágóðan skilding í vasann á ferli sínum og hann er ennþá að græða með sölu á ýmis konar Ali-varningi. Einnig lék hann í bíómynd um sjálfan sig og margar bækur hafa verið skrifaðar um hann. En í dag býr hinn sextugi Ali á bóndabænum í Michigan. Hann þjáist af Parkinson veiki af háu stigi en sú veiki er að miklu leyti talin vera tilkomin af þeim fjölda þungu högga sem hann hlaut á sínum glæsta ferli.


Enginn maður getur neitað því að Muhammad Ali var og er einn af merkustu íþróttamönnum frá upphafi. Hann er þó ekki eingöngu þekktur fyrir hnefaleikana heldur einnig fyrir að vera öflugur málsvari blökkumanna í Bandaríkjunum og fyrir að hafa rutt brautina fyrir svarta íþróttamenn sem á eftir honum komu. Ali var einn ötulasti talsmaðurinn gegn Víetnamstríðinu og lét um það þessa setningu falla “Ég fer ekki sem svartur maður yfir hálfan hnöttinn til þess að drepa gula bræður mína fyrir land sem hvítir menn stálu af þeim rauðu.” Ali var einn merkasti maður síðustu aldar og er enn þann dag í dag litið á hann sem hálfgerðan guð í Afríku og einnig er hann mikill friðarsinni og tókst til dæmis að frelsa gísla úr Írak sem sáttamönnum Sameinuðu Þjóðanna tókst ekki. Fyrir nokkrum misserum stoðu yfir sýningar á nýjustu myndinni um kappann en hún ber hið frumlega heiti “Ali” og væri ekki úr vegi að kikja a hana til að sjá sögu þessa snillings á hvíta tjaldinu.


<center>Viðauki</center>
<center>-nokkur ljóð og háfleygar setningar eftir Muhammad Ali-</center>

Song about me

Clay comes out to meet Liston
And Liston starts to retreat
If Liston goes back any further
He'll end up in a ringside seat.
Clay swings with a left,
Clay swings with a right,
Look at young Cassius
Carry the fight.
Liston keeps backing
But there's not enough room
It's a matter of time.
There, Clay lowers the boom.
Now Clay swings with a right,
What a beautiful swing,
And the punch raises the bear,
Clear out of the ring.
Liston is still rising
And the ref wears a frown,
For he can't start counting,
Till Sonny comes down.
Now Liston disappears from view.
The crowd is getting frantic,
But our radar stations have picked him up.
He's somewhere over the Atlantic.
Who would have thought
When they came to the fight
That they'd witness the launching
Of a human satellite?
Yes, the crowd did not dream
When they laid down their money
That they would see
A total eclipse of the Sonny!
I am the greatest!

Cassius Clay fyrir bardagann gegn Sonny Liston

Clean out my cell
And take my tail to jail
'Cause better to be in jail fed
Than to be in Vietnam, dead

Muhammad Ali

King Liston will stay
Until he meets Cassius Clay
Moore fell in four
Liston in eight

Muhammad Ali (Þess má geta að þessi “spádómur” Ali rættist)

A Bad Morning Shave

You think the world was shocked
when Nixon resigned?
Wait till I whup
George Foreman’s behind.
Float like a butterfly,
sting like a bee
His hands can’t hit
what his eyes can’t see
Now you see me,
now you don’t
George thinks he will,
but I know he won’t.
I done wrassled with an alligator
I done tussled with a whale
Only last week I murdered a rock
Injured a stone,
hospitalized a brick
I’m so mean I make medicine sick

Cassius Clay fyrir “Rumble in the Jungle”


<center>Heimildir</center>

Vefsíður:

http://www.chesco.com/~artman/ali.html

http://www.c hron.com/content/chronicle/sports/special/barriers/ali. html

http://www.courier-journal.com/ali/timeline/091 4cassius.html

http://www.float-like-a-butterfly.de/

http://www.oregonlive.com/books/9811/bk981130fl_ali. html

Bækur:

Bubbi Morthens og Sverrir Agnarsson. 1998. Box. Bókaútgáfan Hólar, Akureyri.



Frekar langt en vonandi fræðandi og skemmtileg lesning. :-)

fogg