Þann 29. mars mun óþekktur boxari að nafni Morrade Hakkar freista þess að hakka núverandi óumdeildan milliviktarmeistara Bernard Hopkins. Áður en þetta var tilkynnt hafði ég aldrei heyrt um þennan gaur og býst ekki við að margir aðrir hafi þekkt til hans heldur.
Allt sem ég veit um box bendir til að Hakkar geti ekki hakkað ömmu sína og hvað þá Bernard Hopkins. Hinsvegar eins og Mayorga og Sandes hafa sýnt og sannað upp á síðkastið þá eiga allir möguleika í hnefaleikahring.
Hvað hefur Frakkinn Morrade (31 árs) til síns ágætis? Ferillinn er: 29-3-18, sem er ekki slæmt ef maður skoðar ekki nöfnin. Hann hefur bara barist í Evrópu við evrópska boxara. Töpin komu 1996, 1998 og 2001. Hann tapaði þarsíðasta bardaganum sínum (split decision) en hefndi fyrir í þeim síðasta (TKO).
Allt bendir til að Hopkins muni éta Hakkar en allt er mögulegt, hann er nú orðinn 38 ára. Hver þorir að veðja á Morrade Hakkar?