Ég held að það verði að gera sér grein fyrir því að boxarar verði að boxa oftar en 2svar, þrisvar á ári ef íþróttin á að þróast eitthvað áfram. Það verður að standa að litlum “smokers” eins og það er kallað úti, litlum keppnum, þar sem enginn titill eða neitt slíkt er að veði. Það er ekki keppt um gull eða brons eða neitt annað í þeim dúr heldur bara barist. Þetta er nauðsynlegt bæði til þess að keppendur fái reynslu í hringnum og svo að dómarar og aðrir sem koma að löglegri keppni öðlist reynslu af þessum hlutum og læri af reynslunni, hvað eftir annað. Þetta myndi auka dýptina í hnefaleikalauginni og skapa fleiri boxara og dómara sem kunna sitt verk. Ef við viljum halda boxurunum við efnið verða þeir að fá að keppa. Box er keppnisíþrótt! Þessa viðburði ætti ekki að auglýsa neitt frekar sem einhverja viðburði, viðstaddir yrðu bara þeir sem vissu af þessu svona óbeint og þetta færi bara fram í klúbbunum eða tilfallandi aðstöðu. Því vil ég sjá einn eða tvo smókera á mánuði og svo verða alltaf einhverjir stórir viðburðir annað slagið, eins og gengur og gerist. Ég tel það hins vegar best að þessir smókerar verði lítið auglýstir og lítið úr þeim gert… þeir eru fyrst og fremst til þess að afla reynslu og gefa okkur tækifæri á því að gera nokkur mistök (því án þeirra lærum við ekki) án þess að öll þjóðin sé að fylgjast með… Ekki ætti að auglýsa bikarmót í hagaskóla kl. 14 á sunnudegi eða í íþróttahúsinu við austurberg kl. 16 á miðvikudegi! Látum stærri viðburði en smókerana standa upp úr (mismikið þó!) og látum smókerana smjúga undir radarinn í almenningsvitundinni. Við skulum ekki gera bikarmót eða Íslandsmót að hversdagslegum viðburði, um leið og við gerum það erum við fallin í sama horf og karate, tae kwon do og aðrar smáíþróttir.
Smókerarnir ættu að vera t.d. hringnum í Faxafeninu, nokkir bardagar, 3 lotur, jafnvígir andstæðingar, læknir viðstaddur, allt saman með blessun ÍSÍ, engir blaðamenn frá stærri fjölmiðlum, sem flestir dómarar og ókeypis aðgangur fyrir hvern sem vill koma og horfa.
Þetta er gert úti í löndum og þetta er frábært verkfæri til þess að auka reynsluna fyrir okkur íslendinga, og það á eigin landi!