halda höfði
velta sér
skríða
sitja
standa
taka skref
ganga óstudd
Einnig ná þau fyrr valdi á grófhreyfingum en fínhreyfingum, t.d. byrja þau fyrst að grípa hluti með öllum lófanum áður en þau fara að nota grip þar sem þumalinn vinnur eins og töng með hinum fingrunum.
Börn þroskast líka mjög hægt miðað við afkvæmi annarra dýra og eru því háð foreldrum sínum, eða umönnunaraðilum, í langan tíma. Hraði þroska er þó að litlu leyti háður þjóðfélagslegum venjum, en það er misjafnt eftir menningarsamfélögum hvaða atferli er styrkt mest. Í íslensku samfélagi gæti ég trúað að stór áhersla væri lögð á að börn læri að ganga sem fyrst, en maður heyrir oft fólk tala um það með aðdáun ef barn fer snemma að ganga. Í öðrum löndum gæti það þótt kostur ef barn fer ekki fljótt að ganga, þar sem það er auðveldara að hafa gætur á því ef það er kyrrt á sama stað.
Hér á eftir ætla ég að fjalla aðeins um þroska barna fram að þriggja ára aldri.
0-2 mánaða
Fyrst um sinn er nýburinn ósköp ósjálfbjarga og hefur ekkert vald á hreyfingum sínum. Bráðlega fara þó hálsvöðvarnir að styrkjast og taugakerfið að þroskast, og barnið fer að geta snúið höfðinu frá einni hlið til hinnar þegar það liggur á bakinu. Einnig fer það að geta lyft höfðinu í stuttan tíma í senn þegar það liggur á magnum, og halda höfðinu stöðugu þegar það er í uppréttri stöðu. Það er því gott að leyfa börnum á þessum aldri að liggja svolítið á magnum til að styrkja háls og bakvöðvana. Ekki samt láta börn sofa á maganum vegna aukinnar hættu á ungbarnadauða.
3-4 mánaða
Við þriggja mánaða aldur eru flest börn farin að halda vel höfði. Einnig fara þau markvisst að snúa höfðinu eftir ljósi og skemmtilegum litum.
Mörg börn fara að geta lyft sér aðeins upp á höndunum þegar þau liggja á maganum, oft kallað “mini push-ups” á ensku; gæti útfærst sem smáarmbeygjur á íslensku. Á þessum aldri má líka alveg búast við að börn fari að reyna að snúa sér, en flest börn velta sér fyrst af maganum yfir á bakið. Því þarf að passa sérstaklega vel að skilja barnið aldrei eftirlaust eftir á háum stað, sem reyndar á aldrei að gera þótt það sé yngra.
Fyrir þriggja mánaða aldur geta mörg börn haldið á léttum hlut í stuttan tíma ef hann eru settur í hendurnar á þeim, en upp úr þriggja til fjögurra mánaða aldri fara þau meðvitað að teygja sig eftir hlutum og grípa um þá.
Í kringum fjögurra mánaða aldurinn eru börn orðin það styrk í fótunum að þau geta standið undir sér í stuttan tíma ef maður heldur þannig á þeim að fæturnir hvíli við fast undirlag.
5-6 mánaða
Nú geta flest börn velt sér af maganum á bakið og fara einnig að velta sér af bakinu á magann. Í kringum sex mánaða aldurinn eru mörg börn orðin það styrk að þau geta vel setið með stuðningi og sum geta jafnvel setið ein í stutta stund. Á þessum tíma fara líka börn að snúa höfðinu til að að staðsetja hljóð sem þau heyra.
Gripið er orðið nokkuð gott og börnin fara að geta fært hluti á milli handa. Einnig setja þau markvisst allt sem þau fá í hendurnar upp í munnin til að kanna það nánar.
7-8 mánaða
Flest börn fara að sitja án stuðnings þegar hér er komið og á þessum aldri byrja þau mörg að reyna að skríða. Í kringum átta mánaða er um helmingur barna búinn að ná góðri skriðtækni. Mörg eru einnig farin að geta staðið með stuðningi.
Griptæknin þróast stöðugt og um þetta leyti geta börn haldið á tveimur hlutum í sitt hvorri hendinni. Einnig fara þau að þróa með sér s.k. pinsettugrip, en þar nota þau þumalfingur og vísifingur til að taka upp hluti, í stað þess að nota alla hendina. Einnig fara þau að nota vísifingurinn til að benda á hluti.
9-10 mánaða
Níu mánaða börn geta flest staðið með stuðningi og mörg eru farin að standa upp sjálf við húsgögn eða annað sem þau geta stutt sig við. Um 50% níu mánaða barna eru einnig farin að labba með og við tíu mánaða aldur eru þau flest orðin góð í þeirri tækni. Það er mun erfiðara að setjast niður en að standa upp og börn ná yfirleitt ekki tökum á þeirri færni fyrr en 3-4 vikum eftir að þau læra að standa upp. Fyrst um sinn hlunkast þau bara niður á rassinn, en síðan læra þau að gera þetta rólegar.
Nú fara börn að geta slegið saman tveimur hlutum, ásamt að klappa saman lófunum. Þau geta líka haldið á tveimur hlutum í sömu hendinni, pinsettugripið verður betra og betra og þau fara að hafa yndi af að pota með vísifingrinum í öll göt sem þau finna.
11-12 mánaða
Þegar hér er komið eru flest börn farin að gera mikið af því að ganga með og sum eru jafnvel farin að sleppa sér og geta staðið ein. Mörg börn taka sín fyrstu skref í kringum 12 mánaða aldurinn.
Samhæfing handa eykst stöðugt og nú geta langflest börn klappað saman lófunum. Einnig eru þau farin að geta sett hluti ofan í ílát.
13-14 mánaða
Núna geta flest börn staðið ein á miðju gólfi og mörg eru farin að labba. Á þessum aldri fara börn líka að geta beygt sig niður til að ná í hluti. Þau eru gleiðstíg til að byrja með og þau geta fæst staðið upp án þess að styðja sig á einhvern hátt.
Mörg börn fara nú að geta drukkið sjálf úr stútkönnu og borða með því að tína upp í sig með fingrunum. Það er því gott að hafa puttamat fyrir börn á þessum aldri til að þjálfa fínhreyfingarnar. Á þessum aldri fara börn líka að geta rúllað bolta eftir gólfi og finns oft mjög gaman að fara í leiki þar sem bolta er rúllað á milli.
15-16 mánaða
Börn geta oft labbað aftur á bak á þessum aldri og fara að geta staðið upp án stuðnings. Þau hafa nokkuð gott vald á skeið, þótt oft sullist niður og í kringum 16 mánaða geta þau mörg flett blaðsíðum í bók og byggt turn úr tveimur kubbum.
17-18 mánaða
Göngufærnin eykst stöðugt og þau fara að geta hjólað á þríhjóli. Þau myndast við að reyna að bursta tennurnar (ekki láta þau samt sjá um það ein), verða flinkari með skeið og gaffal, fara að krota með blýanti og geta byggt turn úr þremur kubbum.
19-20 mánaða
Nú eru flest börn komin með það gott jafnvægi að þau eru farin að hlaupa um og fara fljótlega að geta labbað upp stiga, en líklega ekki niður. Þegar börn byrja að labba upp tröppur taka þau eina tröppu í einu og þurfa ætíð að stíga jafnfætis í tröppuna áður en þau hefjast handa við næstu.
Þau eru orðin dugleg að borða sjálf með skeið og gaffli og geta kastað bolta upp á við (undirhandarkast). 20 mánaða börn geta mörg klætt sig úr fötunum með aðstoð.
21-24 mánaða
Nú geta flest börn labbað upp stiga, en þau geta sjaldnast labbað niður stiga sjálf fyrr en um 24 mánaða aldur. Þau geta auðveldlega beygt sig niður til að taka upp hluti án þess að missa jafnvægið, geta kastað bolta með yfirhandarkasti og sparkað honum áfram með fætinum.
Um og upp úr 22 mánaða aldri geta mörg börn teiknað beint strik, púslað einföld púsl og byggt turn úr fjórum kubbum. Í kringum tveggja ára aldurinn hafa börn náð það góðri stjórn og samhæfingu á höndunum að þau geta skrúfað tappa af flösku, eða lok af dollu og snúið hurðarhún.
25-30 mánaða
Á þessum aldri geta börn hlaupið auðveldlega og fara mörg hver að geta hoppað jafnfætis og standa á einni löpp. Þau fara að ná ágætis tökum á að klæða sig úr og í föt og ráða við að þvo og þurka hendur. Þau geta oft byggt háa kubbaturna og um 29-30 mánaða ræður um helmingur barna við að teikna lóðrétta línu.
31-36 mánaða
Nú eru börnin orðin flink við að hoppa jafnætis og fara að geta labbað á tánum. Þau kasta bolta auðveldlega, geta þrætt perlur á band og hneppt stórum tölum, ásamt að teikna hring eftir fyrirmynd. Þriggja ára börn geta flest klætt sig í og úr, svo framarlega sem þau ná til allra festinga, og spennt á sig skó. Einnig fara þau að ná valdi á þerri flóknu tækni að nota skæri.
Að lokum vil ég taka fram að börn þroskast alls ekki öll á sama hraða og undanfarnar tölur eru bara viðmið. Barn sem tekur fyrstu skrefin 15 mánaða gamalt er alveg jafn eðlilegt í þroska eins og barn sem tekur fyrstu skrefin níu mánaða gamalt.
Kveðja,