Brjóstamjólk er sú besta næring sem þú getur gefið nýfædda barninu þínu. Hún inniheldur öll næringarefni, vítamín og bætiefni í réttum hlutföllum, er auðmeltanleg og gjörsamlega sniðin að þörfum litla barnsins sem er að vaxa og þroskast. Meltingarvegur nýburans er enn mjög óþroskaður og því ræður barnið illa við að brjóta niður og melta prótein og fitu, en þessi orkuefni eru í raun formelt í brjóstamjólkinni og valda því litlu álagi á meltingarveg barnsins. Brjóstabörn nýta því langstærstan hluta mjólkurinnar, sem er ástæðan fyrir því að hægðirnar hafa sitt einkennandi útlit; gular, kornóttar og linar. Það er einfaldlega ekki meira af úrgangsefnum til að skilja út. Einnig er ekkert óeðlilegt þótt brjóstabarn hafi ekki hægðir nema á viku fresti. Meltingarvegur barna er einnig mjög viðkvæmur fyrir sýkingum fyrstu mánuðina en það er einmitt þessvegna sem nauðsynlegt er að dauðhreinsa það sem fer upp í þau, t.d. snuð. Oftast er langeinfaldast að setja snuðin í sjóðandi vatn í ca 20 mín til að dauðhreinsa þau. Brjóstamjólkin er alltaf tilbúin við rétt hitastig og er dauðhreinsuð af náttúrunnar hendi. Hún hefur líka þá eiginleika að vinna á móti bakteríum og veirum, og inniheldur t.d. immunoglobulin sem er mótefni og hluti af ónæmiskerfinu. Immunoglobulin vinnur líka á móti ofnæmisviðbrögðum og því þróar brjóstabarn síður með sér ofnæmi ásamt því að brjóstamjólkin styrkir ónæmiskerfi þess og veitir vörn gegn ýmsum smitsjúkdómum, sérstaklega magasýkingum.
Áður en eiginleg brjóstamjólk kemur í brjóstin myndast s.k. broddmjólk. Þegar barnið sýgur í fyrstu skiptin þá fær það þessa broddmjólk og magnið er yfirleytt ekki mikið. Þetta er þó allt saman sniðið frá náttúrunnar hendi; fyrstu dagana er barnið yfirleytt ekki svangt, það fæðist alveg fullkomlega mett vegna þeirrar stöðugu næringu sem það fékk í móðurkviði, og einnig notar það oft fyrstu dagana til að hvíla sig og jafna sig eftir fæðinguna. Broddmjólkin er samt sem áður gríðarlega mikilvæg. Hún inniheldur mikið magn af immunoglobulini, sem styrkir ónæmiskerfi barnsins, og öðrum efnum, sem m.a. aðstoða við að koma meltingu barnsins í gang. Þó að kona geti eða vilji ekki hafa barn sitt á brjósti af einhverjum ástæðum þá er það samt mikill kostur ef barnið fær þó fyrstu broddmjólkina. Það er ágætis start út í lífið. Auðvitað er samt lang æskilegast að barnið fái brjóstamjólk fyrstu mánuðina.
Erfiðleikar við brjóstagjöf:
Langflestar konur geta haft barnið sitt á brjósti. Erfiðleikar með brjóstagjöf, sérstaklega í byrjun, eru þó algengir og verða oft til þess að konan gefst upp og hættir með barnið á brjósti. Með smá þolinmæði, vilja og aðstoð er oftast hægt að sigrast á erfiðleikunum og komast upp á lagið með brjóstagjöfina. Eitt algengasta vandamálið er þegar barnið tekur brjóstið ekki rétt. Þá sýgur það vitlaust, fær litla mjólk og geirvörturnar verða sárar og aumar. Þegar barnið er sett á brjóst er gott að strjúka kinn þess með fingrinum til að örva leitarviðbragðið, en þá opnar það munninn. Þá er best að stinga brjóstinu upp í barnið og stærstur hluti brúna svæðisins umhverfis geirvörtuna á að vera uppi í barninu, ekki bara geirvartan. Með þessu móti liggur geirvartan því sem næst í koki barnsins og það notar kjálkana til að mjólka brjóstið. Ef brúna svæðið er að mestu hulið munni barnsins, þú sérð eyru þess hreyfast og heyrir það kyngja þá er það líklega að taka brjóstið rétt. Þegar barnið sýgur á það að vera í þannig stellingu að allur líkami þess á að snúa að þér, það á ekki að liggja á bakinu og snúa höfðinu. Það er góð regla að hafa í huga að magi (barnsins) á að liggja upp við maga (þinn). Það eru samt til fleiri góðar stellingar en að sitja með barnið í fanginu, t.d. að liggja með það í rúminu/sófanum og fótboltastellingin, en þar liggja fætur barnsins fyrir aftan bak þitt meðfram síðunni og þú heldur undir hnakka þess og horfir í augun á því. Ef geirvörturnar eru aumar getur verið gott að breyta um stellingar til að létta á álaginu. Svo eru til hjálpartæki, s.s. mexíkanahatturinn, sem er gúmmí- eða silikonhlíf sem sett er yfir geirvörtuna og barnið getur sogið í gegnum. Hún getur verið ágæt þegar barnið á í vandræðum með að sjúga rétt, ef geirvörtur eru flatar þannig að það er erfitt fyrir barnið að ná taki og ef þær eru aumar. Best er samt að sleppa hjálpartækjum um leið og möguleiki er.
Annað vandamál er þegar barnið sýgur illa, grætur mikið, vill alltaf vera á brjóstinu og virðist aldrei fá nóg. Margar konur gefast upp á þessu ástandi og byrja að gefa barninu ábót. Oftast er það algjör óþarfi því að í flestum tilfellum er um eðlilegan vaxtarkipp að ræða. Á þessu tímabili hagar barnið sér einmitt eins og það fái ekki nóg og vill sífellt vera að sjúga brjóstið. Að setja barnið oftar á brjóst örvar einmitt mjólkurframleiðsluna og barnið er með þessu einfaldlega að haga magni brjóstamjólkurinnar eftir eftirspurn. Ef þú gefur barninu ábót fer barnið sjaldnar á brjóstið og mjólkurframleiðslan minnkar. Ef virkilega er þörf á ábót er hægt að kaupa s.k. hjálparbrjóst, en það er lítill brúsi sem er hengdur um hálsinn og í hann er hægt að setja þurrmjólkurblöndu. Úr brúsanum liggur svo slanga sem hægt er að teipa við geirvörtuna og þegar barnið sýgur brjóstið fær það bæði ábót og brjóstamjólk og örvar um leið brjóstamjólkurframleiðsluna með soginu.
Hversu lengi á brjósti?
Það er mjög misjafnt hver langan tíma það tekur fyrir barn að drekka eina máltíð, sum eru fimm mínútur en önnur 20. Æskilegast er að barnið drekki aðeins úr öðru brjóstinu í einu og ekki ætti að skipta um brjóst fyrr en barnið hefur klárað úr því fyrra. Ástæðan er sú að fyrsta mjólkin sem kemur í hverri máltíð er þunn og næringarlítil og svalar þorsta barnsins. Síðan verður hún þykkari og feitari og það er síðasta mjólkin úr brjóstinu sem er hitaeiningaríkust. Það er því nauðsynlegt að barnið fái að klára úr brjóstinu til að það fái alla næringuna. Ef barnið drekkur úr báðum brjóstunum í sömu máltíð ætti sú næsta að byrja á því brjósti sem það endaði á síðast. Ef það lætur sér nægja annað brjóstið í máltíð er heppilegast að það drekki einfaldlega úr brjóstunum til skiptis. Grænar og froðukenndar hægðir eru merki um að barnið sé ekki að fá nóga næringu. Það er líka mjög misjafnt hve oft börn vilja fara á brjóstið. Sum vilja drekka á 1-2ja tíma fresti en önnur kannski á 4-5 tíma fresti. Það er allur gangur á þessu og best er bara að leyfa barninu að ráða. Það finnur sjálft hvenær það er svangt og stundum vill það nú bara kúra og fá notalegheitin, öryggið og hlýjuna frá mömmu.
Það er talið æskilegast að barn sé eingöngu á brjósti til 4-6 mánaða aldurs. Eftir 6 mánaða aldur er mælt með að þau fari að fá aðeins fjölbreyttari fæðu og þá sérstaklega eitthvað sem er járnríkt. Á þessum tíma eru nefninlega járnbirgðir barnsins farnar að minnka verulega, en járn er líklega það eina sem brjóstamjólkin er ekki rík af. Flestir ungbarnagrautar sem eru á markaðnum eru járnbættir. Það eru heldur engar reglur um hvenær hætta eigi með barn á brjósti. Sum börn hætta fljótlega eftir að þau fá að borða fasta fæðu, önnur vilja halda í brjóstið allt þar til þau eru nokkurra ára gömul. Þetta er eitthvað sem þú og barnið þitt verðið bara að finna út í sameiningu. Það er svo gott að kúra og tottast hjá mömmu :)
Næring mjólkandi móður:
Í flestum tilfellum geta konur borðað allan almennan mat þó þær séu með barn á brjósti. Sum börn eru þó ofurviðkvæm og þá getur móðirin þurft að forðast einhverjar ákveðnar fæðutegundir, en þetta er í raun miklu sjaldgæfara en margir halda. Fjölbreytni í fæðuvali er lykilorðið og passa að drekka nægjanlegan vökva. 200-500 kaloríur aukalega nægja til að móðirin hafi nóga næringu fyrir brjóstamjólkurmyndunina. Ekki hefur verið sannað að einhver ákveðin fæða auki brjóstamjólkina neitt sérstaklega. Bjór, malt og rauðvín hafa lengi verið taldar mjólkuraukandi afurðir en í raun virðist svo vera að það hjálpi aðeins í þeim tilfellum þar sem konan hefur þjáðst af B-vítamín skorti, en þessar afurðir eru einmitt B-vítamín ríkar. B-vitamínskortur getur t.d. orðið hjá konum sem eru grænmetisætur og neyta engra vara úr dýraríkinu og þurfa þær því að hafa þetta í huga þegar þær eru með barn á brjósti. Varúðar ætti að gæta við alla lyfjatöku meðan á brjóstagjöf stendur og vert er að benda á að ýmis grasate geta innihaldið óæskileg og jafnvel eitruð efni sem skiljast út í brjóstamjólkinni og því ætti að forðast þau meðan barnið er á brjósti.
Svo vil ég af gefnu tilefni taka fram að ef móðir getur af einhverjum ástæðum ekki haft barnið á brjósti þá er hún ekkert verri móðir fyrir það. Mæður hugsa alveg jafn vel um börnin sín hvort sem þær hafa þau á brjósti eða ekki. Stundum gengur brjóstagjöfin illa og getur valdið móðurinni mikilli vanlíðan. Oftar en ekki fær hún samviskubit, finnst hún ekki standa sig nógu vel í móðurhlutverkinu og þarf í ofanálag e.t.v. að heyra allskyns ásakanir frá öðrum. En eitt er víst; það er einfaldlega mun betra fyrir barnið að eiga ánægða móður í andlegu jafnvægi, en móður sem er að farast úr stressi og vanlíðan yfir erfiðri brjóstagjöf.
Hér er svo linkur á ágæta síðu varðandi brjóstagjafaráðgjöf og hjálpartæki við brjóstagjöf:
<a href="http://ymus.vefurinn.is/brjostagjafarradgjof.asp">Hjálpartæki við brjóstagjöf</a
Kveðja,