Talið er að um 10% barna undir 15 ára aldri þjáist af mígreni. Þetta hlutfall gæti verið hærra þar sem oft er erfitt að greina mígreni hjá þessum aldurshóp. Norskar niðurstöður sýna að um 3% smábarna þjáist af mígreni og þetta hlutfall fari smám saman vaxandi með aldrinum og hjá 15 ára unglingum séu um 6-10% sem hafa mígreni. Sem betur fer vex þetta oft af börnunum, þó frekar af drengjum. Hjá fullorðnum eru konur í meirihluta þeirra sem hafa mígreni, en hjá börnum eru fleiri drengir sem hafa þennan sjúkdóm heldur en stúlkur. Mígreni getur komið aftur á fullorðinsárunum þó það hafi horfið á tímabili.
Ein helsta ástæða þess að erfitt er að greina mígreni hjá börnum er eflaust sú að þau eiga oft erfitt með að lýsa hvernig verk þau eru með og hvar hann er staðsettur. Börn hafa heldur ekki endilega þessi týpísku einkenni mígrenis. Þau hafa mun oftar jafnari höfuðverk, þ.e. ekki öðru megin höfuðsins, og einnig þurfa þau ekki endilega að hafa þann púlserandi höfuðverk sem flestir fullorðir mígrenissjúklingar þekkja. Lengd mígrenikastanna er einnig styttri hjá börnum og magaverkur er mjög algengur fylgifiskur barnamígrenis. Barnið verður fölt og slappt, og oft fylgir ógleði og jafnvel uppköst, svimi og almenn vanlíðan. Ljósfælni og lágur þröskuldur fyrir hávaða er einnig algengt. Börnin leita því yfirleitt í dimmt og rólegt umhverfi þegar þau fá mígrenikast. Önnur einkenni geta verið m.a. þorstatilfinning, tíð og mikil þvaglát, niðurgangur og svitaköst. Hjá sumum börnum er magaverkur eina einkenni mígrenisins og þá er stundum talað um magamígreni. Börn upplifa sjaldnar áru en fullorðnir og ef þau upplifa hana getur hún verið ansi ógnvekjandi þar sem þau skilja ekki hvað er að gerast. Ekki sjaldan er einkennum mígrenis ruglað saman við venjulega pest, en ef foreldrar upplifa að þetta gerist aftur og aftur hjá börnum sínum með vissu millibili er alveg ástæða að leita til læknis og láta athuga með mígreni.
Svefn er besta meðalið við mígreniköstum hjá börnum.Verkjalyf geta einnig hjálpað þegar barnið fær kast. Hefðbundin mígrenilyf eru oft ekki ætluð börnum vegna mögulegra aukaverkana og/eða lítillar þekkingar um áhrif þeirra fyrir þennan aldurshóp, en í einstaka slæmum tilfellum getur slík lyfjameðferð þó átt við. Einnig það hreinlega mjög mikilvægt fyrir börn að fá greningu og fá þannig skýringu á höfuðverkjunum og fullvissu um að þetta sé ekki hættulegt þó það sé óþægilegt. Sálarplástur virkar oft vel fyrri börn og þá er mikilvægt fyrir mömmu og pabba að geta útskýrt að þetta sé ekki hættulegt og að þetta líði hjá, leyfa barninu að vera í ró og jafna sig.
Besta og mikilvægasta meðferðin gegn mígreni er að reyna að fyrirbyggja köstin. Þegar nánar er að gáð er oft hægt að finna ákveðnar aðstæður sem frekar ýta undir mígrenikast. Foreldrar geta t.d. haldið dagbók um hvernig aðstæðurnar eru þegar köstin koma hjá barninu og reynt að sjá hvort eitthvað samhengi sjáist. Algengt er að stress, svefnleysi, óreglulegar máltíðir, vissar fæðutegundir, sterkt ljós eða hávaði, hiti eða kuldi og áreynsla komi mígrenikasti af stað. Þetta getur auðvitað verið misjafnt frá barni til barns. Ef foreldrar finna út að ákveðnar aðstæður koma frekar mígrenikasti af stað hjá barni þeirra er langbesta mígrenimeðalið að reyna að koma í veg fyrir að þær aðstæður skapist. Regla á svefni og máltíðum og halda blóðsykrinum sem stöðugustum er mjög mikilvægt hjá mígrenibörnum. Reglulegar slökunaræfingar, hæfileg hreyfing og reyna að minnka stress í daglegu umhverfi barnsin getur einnig gefið góða raun.
Maður skyldi ætíð vera á varðbergi ef barn fær höfuðverk, þar sem hann getur einnig verið tákn um alvarlegri sjúkdóma, s.s. heilahimnubólgu. Ef höfuðverknum t.d. fylgir hiti, hnakkastífleiki, barnið verður sljótt eða meðvitunarlítið og/eða fær húðblæðingar ber ætíð að hafa strax samband við lækni. Einnig skal fylgjast vel með ef höfuðverkurinn er orsök höfuðhöggs. Í einstaka tilvikum getur höfuðverkur einnig verið merki um æxli í höfði. Langoftast er þó höfuðverkur barna af saklausum ástæðum og oftast er einfaldlega um að ræða hefðbundinn spennuhöfuðverk, eða höfuðverk tengdan flensu, kvefi, eða öðrum umgangspestum. En mjög slæma og/eða endurtekna höfuðverki ber ætíð að láta athuga hjá lækni.
Heimildir:
<a href="http://www.helsenytt.no/artikler/migrene_hos_barn.htm“>Helsenytt.no - Migrene hos barn</a>
<a href=”http://www.headachecare.com/hachildren.cfm“>headacheCARE.com - Headaches and Children</a>
<a href=”http://www.migraine-facts.com/html/children.php3">Migraine Facts - Identifying Migraines in Children</a
Kveðja,