Hæhæ. Ég eignaðist dóttur með kærustunni minni fyrir þremur mánuðum. :) Fyrstu dagana eftir fæðinguna leið mér óendanlega vel. Ég held eiginlega að ég hafi aldrei verið jafn hamingjusamur :D
En svo núna, eftir margar andvökunætur, þá líður mér á allt annan hátt. Ég er oft svo kvíðinn og ég er svo svefnlaus. Við leyfum oft krílinu að sofa upp í hjá okkur. Og einhvern veginn finnst mér tilfinningar mínar gagnvart litla anganum hafa breyst. Ég finn ekki fyrir alveg jafnmikilli væntumþykju og áður. Oft er ég bara pirraður og leiður. Stundum finnst mér (æj, mér finnst hræðilegt að segja þetta), en stundum bara finnst mér eins og ég elski ekki barnið mitt.
Kannski er þetta ekki eitthvað sem maður á að bera undir fólk á huga.is, en ég bara get ekki fengið það af mér að segja kæró frá þessu. Mig langaði bara að vita, líður einhverjum hérna eins? Er kannski eðlilegt að líða svona stundum? Mér finnst ég bara vera svo máttlaus gagnvart tilfinningum mínum.