Ég hef gengið í gegnum svipað. Gerðist múslimi árið 1999, þá komin yfir tvítugt, en fjölskyldan átti mjög erfitt með að taka því í byrjun en það lagaðist síðan og sambandið á milli okkar er mjög gott. Þau eru kannski ekki sátt við mína ákvörðun og skilja hana ekki enn en hafa séð að ég er enn sama stelpan þeirra þrátt fyrir að ég lifi lífi mínu sem múslimi.
Viðbrögð mömmu þinnar eru í sjálfu sér ósköp skiljanleg. Þetta er sjokk fyrir hana og hún getur litið á þetta sem ákveðna höfnun: þú valdir eitthvað annað en það sem hún kenndi þér og í því vali er sjálfkrafa höfnun á því sem hún kenndi þér (hvort sem það var kristni eða eitthvað annað). Bættu síðan inn í myndina almenn viðhorf til Íslams á Íslandi í dag og þá sérstaklega hugmyndir um viðhorf Íslams til kvenna og þá virðist henni hugsanlega sem þú hafir hafnað öllu því sem hún kenndi þér um að vera íslensk kona. Mér fannst mamma mín upplifa það svolítið þannig, en ég reyndi að koma henni í skilning um að ég sæi þetta akkúrat öfugt, ég gerðist múslimi af því að ég er íslensk kona sem var kennt að vera sterk, sjálfstæði í hugsun og gjörðum og ekki hrædd við að vera ég og vera öðruvísi en aðrir:-)
Vonandi á mamma þín eftir að jafna sig og samband ykkar eftir að vera gott þrátt fyrir trúskipti þín. Ekki hika við að hafa samband ef þig vantar einhverja aðstoð eða einhvern til að tala við.