Ég hef oft hugsað hvort foreldrar velji frekar myndir til að fara með börn sín á eftir eigin smekk en ekki smekk barnanna. Í gær var mér til dæmis boðið á forsýningu á Harry Potter sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Ég vissi að ég væri að fara á barnasýningu og þótti það bara hið besta mál. En ég varð ekki lítið hissa þegar ég sá börn allt niður í tveggja ára gömul. Þessi börn voru náttúrulega alls ekki að skilja upp né niður í myndinni, skildu ekki talið (sem vitaskuld var á ensku) og foreldrarnir voru túlkar. Ég gat næstum því leitt hjá mér konuna sem sat við hliðina á mér með fjögurra ára gamlan son sinn í fanginu og las ALLAN textan fyrir hann -eins og hún væri að lesa bók, ég gat meira að segja leitt hjá mér hræðsluöskrin þegar verið var að slást við vondu kallana. Ég átti hinsvegar erfiðara með að leiða hjá mér konuna sem sat fyrir aftan mig með fjögur börn og útskýrði hvert atriði, minnti á sambærilegt atriði í bókinni og sagði alltaf öðruhvoru: Ha, ha, ha.. fannst þér þetta ekki sniðugt! Hefðir þú gert svona?

Svona lagað er mjög þarft uppeldisatriði og er eðlilegt þegar þú situr með barnið þitt heima í stofu yfir sjónvarpinu. Það er eðlilegt að tala við barnið um hvað það er að horfa á, þroska athyglisgáfuna með því að sýna fram á tengslin við önnur atriði og þess háttar -EN bíósalur er ekki rétti staðurinn. Og kvikmyndin er alls ekki ætluð mjög ungum börnum enda heyrði ég hræðsluna frá mörgum börnum þarna. Það er öruggt að foreldrarnir skemmtu sér vel yfir myndinni en það er næsta öruggt að börnin skemmtu sér ekki jafnvel. Ég yrði jafnvel hissa ef foreldrarnir hafa ekki þurft að vakna nokkrum sinnum yfir martröðum barna sinna eftir myndina.