Ég á mjög hressar og yndislegar litlar frænkur sem eru systur og eru 4 og 5 ára. Við búum allar úti á landi en við vorum um helgina staddar í Reykjavík. 16. júní voru þær mjög spenntar fyrir deginum á eftir og voru alltaf að tala um 17. júní. Sú yngri var að pæla í því hvernig áhtíðarhöldin færu fram heima og komst að því að þau fjölskyldan myndu ekki missa af neinu (enda fóru þau aftur heim um kvöldið 16. júní).
Þær voru greinilega búnar að vera að æfa Hæ hó og jíbbí jé í leikskólanum og sungu það lag alveg á grilljón. Svo einu sinni þegar þær gerðu hlé á söngnum spurði sú eldri mig hvort að maður ætti að syngja þetta lag á 17. júní? Ég sagði að maður væri nú ekki skildugur til þess en maður mætti það alveg.
Svo fór sú eldri að spá aðeins frekar í þennan dag og eðli hans (sem sé andlitsmálning, blöðrur, skrúðganga og skemmtun) og svo spurði hún mig: ,,Helga frænka? Er 17. júní líka haldinn í Reykjavík?"