Ég vinn í dægradvöl og heyri þar ýmislegt sem kemur frá börnum. Meðal annars kom þetta frá sex ára barni: "Hey, nauðgaðu henni! Veistu hvað er að nauðga? Það er þegar…[og skýringin kom ansi nákvæm]". Ásamt þessu er það margt fleira í svipuðum dúr, sem mér finnst ég ekki geta haft eftir vegna þess hve dónalegt og svívirðilegt það er.
Nú er ég ekki foreldri sjálf, en mig langar svolítið að vita hvort foreldrar viti almennt hvaða orðaforða barnið þeirra hefur. Það eru auðvitað ekkert öll börn sem tala svona, en þegar maður heyrir þetta frá einu, þá á maður ekki til orð!
Og ég geri mér vel grein fyrir því að það er ekki hægt að fylgjast með öllu því sem barnið lærir. Það notar slík orð varla svo mamma eða pabbi heyri. Þetta er örugglega oftast eitthvað sem börn læra frá þeim sem eldri eru og svo koma þau þessu áleiðis til fleiri barna, sem ættu ekki að kunna slíkt orðbragð þetta ung.