Hún er nú bara 13 ára svo það er nú ekki víst að hún sé einu sinni búin að komast að sinni kynhneigð sjálf. Stelpur hafa nú oft einhverja lesbíska tendensa og þá sérstaklega á unglingsárunum og það er ekkert óeðlilegt við það. Stelpur á þessum aldri eiga oft eina bestu vinkonu, þær leiðast og knúsast og sofa í sama rúmi (allavegana var það þannig hjá mér) en það þarf ekki að þýða neitt. Sumar eru auðvitað samkynhneigðar og ef svo er þá getur þú ekkert breytt því. Vertu bara til staðar fyrir hana og ekki láta hana finna að þú metir hana á neinn hátt minna ef svo er, stattu með henni… það er ömurlegt að finna fyrir höfnun frá eigin foreldrum og plús það að ef hún finnur að þú ert á einhvern hátt á móti þessu þá verður hún tregari til að trúa þér fyrir sínum málum.
Samkynhneigð í dag er sem betur fer orðin viðurkenndari svo það er ekki alveg eins erfitt að “koma út úr skápnum” eins og það var. Samt eru auðvitað enn fullt af fordómum gagnvart samkynhneigðum, ég vona bara að þú getir sætt þig við það ef dóttir þín er samkynhneigð.
Reyndu að opna umræðu um þetta við hana, þú getur gert það á almennu nótunum og það þarf ekki endilega að vera undir fjögur augu, kannski meira svona fjölskylduumræða eða að vinkonur hennar séu með. Spjallaðu við hana svona almennt um unglinga og kynlíf, getnaðarvarnir, fóstureyðingar, barneignir og samkynhneigð… ekki gera það í formi einhvers fyrirlesturs heldur reyndu að hafa þetta svona smá spjall þar sem hún getur viðrað sínar skoðanir. Ef hún finnur að þú ert opin/n gagnvart samkynhneigð verður hún líklegri til að tjá sig um þessi mál. Ekki vera með fordóma og alhæfingar og ekki dæma, reyndu bara að vera opin/n fyrir skoðunum þó að þær séu ekki þær sömu og þínar. Nú veit ég ekkert hver afstaða þín til samkynhneigðra er en burtséð frá því hlýtur það alltaf að vera visst áfall að komast að því að barnið manns sé samkynhneigt.
En eins og ég segi þá er hún bara 13 og á eftir að uppgötva heilan helling um sjálfa sig sem kynveru á næstu árum.