Ekki er æskilegt að banna drykkju ungmenna
Alltaf heyrir maður sama áróðurinn í fjölmiðlum, að mikilvægt sé að foreldrar taki þátt í því að banna drykkju ungmenna alveg til tvítugs. Að kaupa áfengi handa ungmennum sé það sama og ýta undir óæskilegu neyslu þeirra. Engar undantekningar, foreldri sem gefur barni sínu rauðvínsglas með matnum er að brjóta lög landsins. Hvenær varð það hlutverk stjórnvalda að sjá um uppeldi ungmenna? Aldurstakmörk eru byggð á fordómum og er aðallega tekið mark á þeim sem þroskast seinast, svona til öryggis. Foreldrar eru hæfastir til þess að meta þroska barna sinna og auka frelsi þeirra til neyslu og athafna eftir því sem þau eldast og þroskast. Ekki er æskilegt að stjórnvöld ákveði slíkt fyrir ungmenni þar sem þau taka ekki mark á þroska einstaklingsins.
Margir unglingar drekka áfengi og eru líkurnar mjög litlar á því að hægt sé að útrýma þessu fyrirbæri, alveg eins og að líkurnar eru mjög litlar á því að hægt sé að koma í veg fyrir neyslu á öðrum fíkniefnum en ríkið selur. Unglingur sem vill drekka áfengi mun gera það á endanum, þeir eru fáir sem bíða til tvítugs með neysluna. Þá er spurningin, hvort er betra að unglingurinn drekki bjór eða landa? Flestar rannsóknir benda til þess að neysla á fíkniefnum sé frekar í óhófi ef henni er haldið leyndri fyrir öðrum. Best er að fara milliveginn og vera ekki strangur með það að banna allt óæskilegt til fullorðinsára, því fleiri takmarkanir sem maður setur á unglinginn því meiri líkur eru á að hann geri uppreisn. Með því að ofvernda unglinginn getur maður auðveldlega ýtt honum út í verri neyslu og lífsstíl, ásamt því að venja unglinginn á það að ljúga að forráðarmönnum sínum.
Ungmenni meta það þegar foreldrar treysta þeim og eru til í að fara milliveginn og eru þá ekki jafn líkleg til uppreisnar og þeir sem hafa stranga og ósanngjarna foreldra.. Foreldrar fá betri sýn yfir lífsstíl þeirra þar sem traust er meira og unglingurinn telur sig ekki þurfa að leyna neyslu sinni fyrir þeim, fá einnig tækifæri til þess að hvetja til hóflegrar neyslu og taka fyrr eftir áfengisvandamálum en hjá unglingi sem heldur neyslunni leyndri. Betra er að fá að vita staðsetningu unglingsins og hvað hann sé að drekka, en að lifa við stöðugar áhyggjur að hann gæti verið úti í kuldanum með landaflösku í hendinni. Á vissum tímapunkti verður foreldrin að skipta yfir í það að vera leiðbeinandi frekar en stjórnandi, þó skiljanlega sé það erfitt skref. Hugsum út fyrir áróðurinn og breytum áfengismenningu okkar til hins betra.
Hallgeir Jónsson
Endilega að hugsa um þetta, endilega að sagja hvað ykkur dettur í hug.
hver ert þú?