Ég fór heim 18 tímum eftir fæðinguna því mér leið ömurlega á spítalanum. Það var ágúst og allir í sumarfríum, önnur deildin var lokuð og allt á fullu. Það talaði enginn við mig þarna niðurfrá nema ef ég hringdi bjöllunni og spurði. Þegar ég kom niður eftir fæðinguna, um miðja nótt, var stelpan mín bara tekin af mér og mér sagt að fara að sofa. Ég vildi hafa hana hjá mér. Allt í einu var ég alein. Maðurinn minn farinn heim, stelpan mín frammi hjá einhverju ókunnugu fólki og ekki einusinni nein bumba á ferð og flugi. Mér fannst það hræðilegt. Og svo svaf ég ekkert í þokkabót því konan í næsta rúmi hraut svo rosalega (við vorum samt bara tvæt á stofu svo mér skilst ég hafi verið heppin). Ég fékk svo að sjá hana í 10 mínútur morguninn eftir og svo var hún tekin aftur því það var að koma barnalæknir. Ég fékk ekki að vera viðstödd þegar hún var skoðuð. Læknirinn var svo ekki búinn að skoða hana fyrr en um hádegi svo ég fékk hana ekki fyrr en eftir hádegismat. Mér fannst þetta hræðilegt. Maðurinn minn mátti svo ekki koma fyrr en klukkan tvö. Þá sagði ég honum að fara heim, gera allt tilbúið og koma svo eins fljótt og hann gæti til að sækja mig.
Þegar ég kom svo heim gat ég loksins haft hlutina eins og ég vildi hafa þá. Maðurinn minn var heima hjá mér og mamma var dugleg að koma í heimsókn og hjálpa honum við heimilsverkin. Ljósmóðirin kom svo einusinni til tvisvar á dag, svona eftir þörfum og ég gat alltaf hringt í hana þegar ég vildi. Hún var frábær og ég hafði hana alveg útaf fyrir mig. Hún sagðist koma þar til hún væri farin að sjá ákveðinn svip á mömmunum, þegar hann væri komin vissi hún að allt væri í lagi og mamman væri tilbúin. Þá lét hún mig kvitta fyrir komuna, þessi 11 skipti sem hún átti að koma, þótt hún hefði bara komið níu sinnum. Hún sagði að hún kvittaði alltaf bara fyrir 11 skipti sama hvort hún kæmi 6 sinnum eða 20 sinnum. Hún var alveg frábær.
Hún sagði mér svo frá nýju kerfi sem ætti að byrja um síðustu áramót þar sem sama ljósmóðir fylgir konunni í gegn um meðgönguna, fæðinguna og er svo hjá henni í sængurlegunni líka. Foreldrarnir fá þá að vera með barnið á fæðingarstofunni í heilan sólarhring frá því að barnið fæðist og fara þá öll saman heim. Þá þarf ekki að henda pabbanum einum út í kuldann. Svo kemur ljósan heim næstu daga. Svipað og MFS-kerfið. Þegar næsta barn kemur ætla ég í svoleiðis kerfi. Ég ætla í öllu falli aldrei aftur að liggja sjálfviljug á sængurkvennadeild Landsspítala Íslands.