Ég á ekki börn en mér fannst þetta svo fallegt að ég táraðist og hugsaði til óþekktarangans hans frænda míns sem er samt sem áður algjör 6 ára engill :)

Drengir eru breytilegir að stærð, þyngd og lit. Þeir eru alls staðar -
uppi á öllu og niðri í öllu, klifrandi, hlaupandi og stökkvandi. Mæður
elska þá, eldri systur og bræður umbera þá, fullorðnir virða þá ekki
viðlits, og Drottinn verndar þá. Drengur er Sannleikur með óhreinindi í
andlitinu, Viska með tuggugúmmí í hárinu og Von framtíðarinnar með ánamaðk í vasanum.

Drengur hefur matarlyst eins og hestur, meltingu eins og sverðagleypir,
orku eins og vasaatómsprengja, rödd eins og einræðisherra. Hann er gæddur
forvitni kattarins, ímyndunarafli skáldsins, feimni fjólunnar,
viðbragðsflýti veiðibogans, funa flugeldsins, og þegar hann býr eitthvað
til, hefur hann fimm þumalfingur á hvorri hendi.
Hann kann vel að meta rjómaís, hnífa, sagir, myndabækur, skóga, vatn (í
sínu náttúrulega umhverfi), stór dýr, pabba, bíla, laugardagsmorgna og
brunabíla. Hann er lítið fyrir sunnudagaskóla, barnaskóla, myndalausar
bækur, spilatíma, hálsbindi, rakara, stelpur, frakka, fullorðna eða
háttatíma.
Enginn er eins árrisull, og enginn eins síðbúinn til matar og hann. Enginn
nema hann getur troðið í einn vasa ryðguðum hníf, hálfétnu epli, þriggja
feta snærisspotta, þremur blossateinum, tuttuguogfimmeyringi, vatnsbyssu,
og dularfullu áhaldi, sem enginn þekkir nema hann.
Drengur er sannkölluð töfravera - þú getur lokað hann úti úr vinnustofunni
þinni, en þú getur ekki lokað hann út úr hjarta þínu. Þú getur fengið hann
burtu úr skrifstofunni þinn, en þú getur ekki fengið hann burtu úr huga
þér. Það er eins gott að gefast upp strax - hann er fangavörður þinn,
húsbóndi og herra - freknóttur ólátabelgur. En þegar þú kemur heim á
kvöldin með allar borgir vona þinna og drauma hrundar, getur hann reist
þær aftur með tveim töfraorðum -
“Halló mamma!”