Mig vantar bara að létta aðeins á hjarta mínu. Ég er búin að heyra svo rosalega margar ógeðslegar sögur í dag og í gær. Mér líður svo illa yfir þessu öllu saman að ég get ekki sofið. Ég ligg bara og græt. Maðurinn minn er sofnaður og ég vil ekki vekja hann bara til að hann geti hlustað á vælið í mér. Stelpan mín er sofnuð svo ég get ekki knúsað hana og fengið smá huggun. Ég verð að fá að deila þessu með ykkur.

Sko, þannig er mál með vexti að vinkona mín var að koma heim frá Zambíu, eins og ég sagið ykkur í dag. Hún var að segja mér allskyns sögur af börnum þarna úti. Meðal annars sagði hún mér frá því að vinkona hennar þarna úti hafði verið að vinna á munaðarleysingjahæli einhversstaðar í Rúmeníu (eða eitthvað álíka) og þar hafi hún verið á deild þar sem voru 25 börn þriggja ára og yngri. Tvær konur stjórnuðu þessari deild og voru þær þar til skiptist, eina viku í senn. Fyrri konan var hræðileg norn. Hún öskraði á börnin og lamdi þau þegar enginn sá til, ef þau voru óþekk þá hélt hún þeim út um gluggan (deildin var á 3. hæð) og hótaði að sleppa ef þau yrðu ekki þæg. Stelpan sagði að alla vikuna voru börnin brjáluð úr hræðslu, þau sátu bara úti í hornum, grétu og skulfu. Þau fóru ekki á salernið heldur gerðu bara í buxurnar, þarna var enginn leikur og alls engin gleði.
Þega hin konan kom svo vikuna á eftir var allt annað að sjá. Börnin léku sér, brostu og hlógu, þau elstu klæddu sig sjálf og fóru sjálf á salernið án nokkurra vandræða.
Þessi stelpa fór og kærði “nornina” og fékk þá að vita það að lögreglan hafði verið að vinna í þessu máli í heilt ár en var ekki með nóg sönnunargögn. Hún bauðst til að vitna, en lögreglan sagði að það væri ekki nóg.
Eftir því sem ég best veit er þessi kona þarna ennþá.

Við vorum að ræða þetta á mömmu-morgni og þá fengum við að heyra ýmsar fleiri sögur.

T.d. frétti ég af því að hér á Íslandi var fólk sem skildi barnið sitt (um eins árs gamalt) eftir eitt heima á meðan það fór í helgarferð til útlanda. Þau skildu bara eftir mat í kringum barnið og héldu að það myndi bjarga sér. Nágrönnunum fór að finnast það grunsamlegt þegar barnið var búið að gráta í tvo sólarhringa og hringdu í lögregluna. Hvað er að svona fólki?

Svo heyrði ég um fólk í Bandaríkjunum sem ættleiddi lítið barn frá Rúmeníu (þetta var víst í sixty minuets). Barnið var nokkurra mánaða þegar þau fengu það í hendur. Þegar þau voru búin að hafa barnið í nokkra mánuði uppgötvaðist að það var með ólæknandi sjúkdóm og myndi ekki lifa nema í nokkra mánuði í viðbót. Barnið var þá orðið eins árs. Þau sendu barnið til baka á munaðarleysingjahælið í Rúmeníu og létu það deyja þar. Þetta var ekki það sem þau pöntuðu! Þau sögðu eftir á að þetta væri auðvitað leiðinlegt fyrir barnið að þurfa að eyða síðustu mánuðunum þar en það væri ekki þeirra vandamál.

Eins var önnur vinkona mín að segja mér annað. Maðurinn hennar vinnur út á herstöð í Keflavík. Hún fer stundum til hans og þau fá sér eitthvað að borða á veitingastöðunum þar. Einu sinni þegar þau voru að fá sér að borða voru þarna bandarísk hjón með ungabarn í bílstól með sér. Barnið var ca. tveggja mánaða. Barnið fór að gráta á meðan foreldrarnir voru að borða, pabbinn varð pirraður yfir því að fá ekki frið á matartímanum, stóð upp og sló barnið fast utan undir. Og þetta er víst viðurkennt í Bandaríkjunum og ennþá meira í Bretlandi er mér sagt. Hvað er að? Heldur svona fólk að tveggja mánaða barn skilji að það eigi að þegja ef það er slegið? Hver lemur svona lítið barn? Eða bara börn yfir höfuð?

Svo var ég að frétta af ungri móður hér í Reykjavík, sem nú fyrir stuttu sagði frá því í svona “mömmu-klúbb” sem hún er í að hún lemdi alltaf börnin sín með trésleif ef þau væru óþekk. Aðrar mömmur í hópnum voru alveg rosalega hrifnar af þessu (þetta er ekki kaldhæðni, þeim fannst þetta virkilega góð hugmynd). Ég vildi að ég hefði verið þarna. Ég hefði náð mér í trésleif, barið hana með sleifinni og spurt hana hvort henni fyndist þetta gott.

Þetta er bara brot af þeim sögum sem ég heyrði í gær. Er heimurinn svona vondur? Er virkilega til fólk sem gerir svona lagað við börnin sín? Viljiði segja mér að það séu ekki allir svona og það séu bara eiginlega engir svona. Mér finnst svo erfitt að heyra svona hluti. Ég er búin að vera hálf dofin í allan dag og var það í allan gærdag líka. Ég faðma dóttur mína við hvert tækifæri til að fullvissa mig um að það sé allt í lagi með hana og það sé enginn hér sem geri henni neitt slíkt. Jafnframt hugsa ég um öll börnin sem eiga ekki svona gott. Mig langar svo að hjálpa þeim. Helst myndi ég vilja eiga stórt heimili og taka öll þessi börn að mér. Maðurinn minn segir að ég megi aldrei fara til Indlands eða á neinn stað þar sem er mikið af götubörnum því að ég myndi reyna að taka þau öll með mér heim.

Æi… litla hjartað mitt þolir ekki svona, ég bara græt og græt. Fyrirgefið alla tilfinningasúpuna hérna, ég bara varð að fá að létta á hjarta mínu. Viljiði segja mér að heimurinn sé ekki svona.

miður sín
Tzip
<BR