Stundum sakna ég rosalega þeirra tíma þegar það var ekki sjónvarpsdagskrá allan sólarhringinn nánast, vídeótæki ekki til á heimilinu, hvað þá tölva, playstation og þ.h. dót. Ekkert sjónvarp á fimmtudagskvöldum, ekkert sjónvarp í heilan mánuð á sumrin og maður gat dundað sér í alls konar leikjum bæði úti og inni heilu og hálfu dagana, dúkkó, barbí, búðaleikur, mömmó, kubbó, skólaleik, feluleik, eltingaleik, kallinn í tunglinu, drullumalla, bílaleik, byggja snjóhús og göng, renna sér á snjóþotu allan liðlangan daginn, bréfaleik, klippa fólk úr vikublöðunum hennar mömmu (mömmu kannski ekki til mikilla ánægju) og nota sem dúkkulísur og ég get talið upp endalaust. Já ég gleymdi einu, það voru kannski sýndar teiknimyndir svona einu sinni í viku, Tommi og Jenni og svo Stundin Okkar á Sunnudögum og við lifðum það af. Þetta sjónvarp er alltof mikill tímaþjófur bæði hjá börnum og fullorðnum. Stundum langar mig til að henda sjónvarpstækinu inn í geymslu og prófa að hafa ekkert sjónvarp í mánuð og gá hvort að ég og dóttir mín getum ekki fundið okkur margt sniðugra til að gera saman heldur en sjónvarpsgláp. Já það er margt búið að breytast á skömmum tíma. Er þetta bara ellin að hellast yfir mig og ég er ekki einu sinni orðin þrítug. Jæja þetta voru nú bara svona smá pælingar.

Kalispera
——————————