Ég er mikið búin að velta fyrir mér mataræði ungra barna. Sjálf á ég tvö, eins árs og tæplega þriggja ára.

Hvað varðar mín börn þá eru þau mjög mismunandi hvað varðar mat og matarvenjur. Það hefur alltaf þurft að halda mat að stráknum (sem er eldri) og hvetja hann til að vera duglegur að borða. Stundum borðar hann vel, stundum næstum ekkert. Hann er svolítið matvandur en þó held ég ekkert meira en gengur og gerist. En það virðist vera alveg sama hvað hann er að borða, hann fitnar aldrei. Hann er greinilega eitt af þessum börnum með “ofurbrennslu”.
Stelpan er allt öðru vísi. Alveg frá því að hún fór að fá “mat” þá hefur hún tekið vel við og borðar næstum hvað sem er og mikið af því. Samt er hún bara í meðallagi hvað varðar þyngd.

En það sem ég hef nú verið mest að spá í hvort að ég sé að gefa börnunum mínum slæman mat? Ég hef rosalega mikið orðið vör við heilsubyltinguna sem virðist vera í gangi hjá ungum foreldrum. Sérstaklega hjá þeim sem hafa verið að eignast sitt fyrsta barn. Það virðist vera svo algengt að nú eigi aldeilis að standa sig vel og aldrei sjást gefa barninu neitt nema það sem sé einstaklega hollt og gott. Sem er svo sem gott og blessað.

En hver getur sagt okkur fyrir fullt og allt hvað sé best fyrir börnin? Er það rangt hjá mér að fjölbreytt fæði úr öllum fæðuflokkum sé það besta? Hver er þá glæpurinn við það að gefa börnunum sínum einstaka sinnum “óhollt”, eins og t.d. skyndibita. Ég fæ stundum þvílíkt augnaráð þegar að ég kem með börnin mín inná skyndibitastaði. Strákurinn minn veit ekkert betra en hamborgarana á American style. Er ég slæm mamma að láta það stundum eftir honum (og okkur)? Börnin mín fá stundum kex á milli mála, aðallega þó ef að lengist eitthvað í næstu máltíð. Er ég syndug af því að einstaka sinnum gef ég þeim súkkulaðikex í staðinn fyrir gróft matarkex sem þau fá þó oftast?

Ég tek það fram að eflaust eru til foreldrar sem ala börnin sín eingöngu á skyndibita og slíkum mat, ég er ekkert endilega hlynnt slíku. En er ekki í lagi að blanda þessu með hinu?

Hvað finnst ykkur? Tilheyrið þið súper foreldra flokknum sem aldrei gefur börnunum sínum neitt óhollt?

bkv.
chloe
það besta sem Guð hefur gefið mér……… eru börnin mín