Ýmislegt ber þó að varast þegar kemur að börnum og sól. Það er mjög mikilvægt að bera sterka sólarvörn á börn og velja þá hæsta stuðulinn og einnig ber að gæta að velja vörn sem verndar bæði fyrir UVA og UVB geislum.
Annað sem mér fannst mjög áhugavert í greininni, og mikilvægt að foreldrar og aðrir forráðamenn barna geri sér grein fyrir, er að það er sterk tilhneyging til að leyfa börnum sem eru með sólarvörn á sér að vera lengur úti í sólinni en ella. Þetta ber að varast því sólarvörnin dugar bara í svo og svo langan tíma og eins veitir hún ekki fullkomna vörn fyrir skaðlegum áhrifum sólargeislanna.
Eitt enn sem bent var á er að klæðnaður veitir mun betri vörn fyrir sólargeislum en sólarvörn og því er í raun betra að hafa börnin klædd í langerma boli og ekki láta þau vera berleggjuð. Þetta er sérstaklega mikilvægt með allra yngstu börnin sem hafa langviðkvæmustu húðina. Bara hafa fötin þunn og einnig passa að hafa þunna húfu eða hatt með skyggni. Sólgleraugu eru líka mjög góð til að vernda augun.
Bæði UVA og UVB geislar geta valdið skaðlegum áhrifum á húð og ber sérstaklega að varast að láta húð barna sólbrenna. Slíkur skaði eykur líkurnar á húðkrabbameini sem getur komið fram mörgum mörgum árum seinna, eða á fullorðinsaldri.
Í þessari grein var minnst á að til væri bæklingur um sólarvörn fyrir börn og mig minnir að það sé hægt að nálgast hann í Apótekum og Heilsugæslustöðvum.
Kveðja,