Það er mikið til af allskonar samsetningum á fjölskyldum hér á Íslandi í dag og oft eru þetta þvílíkar flækjur sem erfitt er að skilja. Allavegana þá eru stjúpforeldrar og stjúpbörn mjög algeng í fjölskyldum á einn eða annan hátt. Ég á sjálf dóttur frá fyrra sambandi og svo á ég eina stelpu með kærastanum mínum og von á strák í maí. Eldri stelpan var 4 ára þegar við byrjuðum saman og það hefur stundum gengið á ýmsu hjá þeim stjúpfeðginum, þó svo að þeim þyki afskaplega vænt um hvort annað.

Mig langar eigilega að vekja smá athygli á því að það er ekkert sjálfgefið að stjúpforeldri og stjúpbarn smelli bara saman og allt gangi snuðrulaust fyrir sig í svoleiðis sambandi, og í raun er það mjög óraunhæft að búast við slíku. Oftast tekur það þó nokkurn tíma fyrir þau að aðlagast hvoru öðru og sambandið að þróast. Rannsóknir tala um að allt upp í 7 ár sé eðlilegur aðlögunartími áður en jafnvægi næst á í stjúpfjölskyldum. Maður er náttúrulega sjálfur búinn að þekkja barnið sitt og kynnast því frá fæðingu og kann a.m.k. þokkalega á það. Það er allt annað að stökkva inn í uppeldi á hálfstálpuðu barni, kannski með enga reynslu af foreldrastarfinu fyrir.

Með okkur t.d. þá var dóttir mín auðvitað vön að eiga mömmu sína ein og var nú ekkert að bekenna það fyrst að einhver nýr maður ætti að fara að skipta sér af henni. Svo er hún líka afskaplega klár og þrjósk stelpa og gerði stundum í því að ögra stjúppabba sínum til hins ítrasta. Hann á móti vantaði stundum þá þolinmæði sem maður sjálfur hefur tamið sér í samskiptum við svona krakka (þó að hún fjúki stundum veg allrar veraldar) og stundum fór sko allt í háaloft. Það gat verið mjög erfitt að átta sig á hvernig maður átti að bregðast við. Maður veit að það er mikilvægt að foreldrar standi saman í uppeldinu og séu ekki að deila um réttar uppeldisaðferðir fyrir framan barnið, en stundum bara varð maður að segja eitthvað. Svo er maður líka mamma og kannski dæmir hinn aðilann pínulítið harkalega stundum. Það er svo merkilegt hvað maður má sjálfur skamma barnið sitt en verður svo foxillur ef einhver annar gerir það :) En allavegana þá gengur þetta alltaf betur og betur. Stelpan þurfti náttúrulega að læra að bera virðingu fyrir stjúppabba sínum og viðurkenna að hann ræður jafn miklu og mamma á heimilinu. Eins hefur hann lært inn á hvernig samskipti virka best og að það sem virkar á fullorðna virkar sko oft ekki rassgat á krakka. Hann tekur henni alveg sem sinni dóttur og hún kallar hann pabba (hún hefur því miður lítið sem ekkert samband við alvöru pabba sinn).

Ég hef líka komist að því að svona árekstrar í stjúpfjölskyldum eru sko ekkert einsdæmi. Vinkonur manns sem eru í svipaðri stöðu hafa margar sömu sögu að segja, og það er svolítið gott að vita af því að það eru fleiri að takast á við svona en maður sjálfur. Þannig að þið sem kannist við þessar aðstæður sem ég er að tala um hér, þið eruð sko ekki ein í heminum :)
Kveðja,