Hvað ertu komin langt á leið? Það er mjög algengt að konur séu mjög þreyttar í byrjun meðgöngu og ekki gleyma að þetta eru líka skilaboð frá líkamanum um að taka því rólega. Það er svo mikið að gerast á þessum tíma, blóðið er að aukast, fylgjan að stækka, hjartað að þjálfast (þarf að dæla meiru) o.s.fr. Um miðja meðgönguna eru konur oft fullar af orku (ekki allar samt:) og svo fara þær að þreytast aftur á seinni hlutanum þegar þær eru orðnar fyrirferðarmiklar og stirðar :)
Hvíldu þig bara þegar þú þarft. Sund er fín hreyfing fyrir ófrískar konur. Annars er nú aðalreglan að það sem þú gerðir fyrir meðgöngu geturu haldið áfram að gera á meðgöngunni. Passaðu bara að ofgera þér ekki og forðastu æfingar sem fela í sér hopp og mikil læti. Það er ekki sniðugt að fara að byrja eitthvað svaka líkamsræktarátak á meðgöngunni.
Ágætar styrktaræfingar eru t.d. æfingar upp við vegg til að teygja á kálfum, gott til að fyrirbyggja sinadrátt. Fyrir bakið er ágætt að sitja á stól eða standa upp við vegg og þrýsta mjöðmum og mjóhrygg að honum. Svo er hægt að gera teygjuæfingar fyrir bak á fjórum fótum; skjóta upp kryppu og slaka svo á. Það er í lagi að gera magaæfingar flöt á bakinu í byrjun meðgöngu, en þegar á líður er það ekki æskilegt, þar sem í þeirri stellingu þrýstir þyngdin af leginu og fóstrinu á stóru bláæðina og veldur súrefnisskorti til þín og fylgjunnar og þar með barnsins. Að sitja á hækjum sér er fín æfing til að æfa lærvöðva og liðka og slaka á grindarbotnsvöðvum. Það er hægt að gera það með því að styðja sig við stól, eða án stuðnings. Ekki svo gleyma að gera líka styrktaræfingar fyrir grindarbotnvöðvana.
Það er gott að slaka á með því að liggja á hlið, með annan fótinn boginn og kodda á milli fótanna. Ekki hafa of hátt undir höfðinu til að reyna ekki um of á hálsliðina. Ef þú vilt liggja á bakinu skaltu ekki vera marflöt (nema það er í lagi í bryjun meðgöngu) heldur hafa vel af koddum undir baki og höfði. Svo er gott að hafa hátt undir fótum til að hvíla þreytta fætur, sérstaklega ef þú ferð að safna á þig bjúg.
Til hamingju með kúlubúann :)