Ég fór aðeins að hugsa út í þetta þar sem nú á stuttum tíma hafa birst tvær kannanir hér varðandi börn og Guð. Önnur var um það hvort við færum með bænir með börnunum okkar, hin hvort við færum með þau í sunnudagaskóla. Í báðum þessum könnunum er svarmöguleikinn “trúi ekki á Guð”.

Ég er að velta fyrir mér, ef maður trúir ekki á Guð er þá sjálfgefið að maður geri ekkert trúarlegt með börnunum sínum eða kynni þau ekkert fyrir kristinni trú? Er það álit flestra? Fyrir mitt leyti þá trúi ég ekki á Guð, en samt sem áður hef ég kynnt þessa trú fyrir stelpunum mínum og ég bið oft bænir með þeirri eldri á kvöldin (sú yngri skilur þetta ekki enn). Ég hef sagt henni frá því hvernig Guð átti að hafa skapað heiminn, sagt henni frá Jesú og englunum og ýmsu öðru sem fylgir þessari kristnu trú. Ég hef sagt henni að hún geti beðið Guð um að passa sig og þá sem henni þykir vænt um og beðið hann um að láta sig dreyma vel og sofa vel. Er ég þá ekkert annað en hræsnari? Ég lít ekki á það þannig. Dóttir mín veit að ég trúi ekki á Guð og ég hef lagt þetta upp fyrir henni að það eru sumir sem trúa á Guð en aðrir ekki og að hún megi alveg ákveða sjálf hvora leiðina hún velur. Henni finnst gott að trúa á Guð og fara með bænir, það er hennar val og ég hef ekkert nema gott um það að segja.

Þegar ég var lítil trúði ég á Guð og mér fannst ég alltaf öruggari við það að biðja bænirnar mínar á kvöldin. Ég reikna með að dóttir mín upplifi þetta sama. Hún hefur sína barnatrú og líður vel með það. Einhverntíman kemur kannski að því að hún taki þá ákvörðun að sleppa þessari barnatrú og það er þá líka bara hið besta mál. Kannanir hafa líka sýnt að börn sem fara með bænir á kvöldin séu öruggari en önnur, eflaust vegna þess að þau upplifa að einhver æðri máttur passi þau og fjölskyldu þeirra. Dóttir mín var alltaf að dreyma einhverjar martraðir á tímabili og þá kenndi ég henni nokkrar bænir og að hún gæti beðið Guð um að láta sig dreyma vel… og martraðirnar hurfu.

Guð er líka ágætur til að útskýra þegar einhver deyr, hvort sem það er ættingi, kunningi eða gæludýr. Hamstur dóttur minnar dó fyrir nokkru og þá leið henni betur að hugsa til þess að hann væri hjá Guði. Þar sem ég trúi ekki sjálf sagði ég einfaldlega við hana að ef Guð væri til þá væri hamsturinn hennar þar núna, og hún er alveg á því að hann sé þar.

Mér finnst allavegana ekki rétt af mér að taka þann möguleika algjörlega burt frá mínum börnum að trúa á Guð þó svo að ég geri það ekki. Okkar þjóðfélag er kristið og ég vil allavegana gefa þeim val um hvort þau kjósa að trúa á Guð eða ekki. Ég hef ekki farið út í að kynna fyrir þeim öll trúarbrögð sem ég veit um, enda tel ég það ekki í mínum verkahring. Mér finnst nóg að kynna þá trú sem er ríkjandi í okkar þjóðfélagi. Annað kemur seinna. Samt hef ég líka sagt stóru stelpunni minni frá því að það trúi ekkert allir á Guð heldur á eitthvað annað og svona aðeins útskýrt það, en ekkert farið út í neitt nánara með það, enda hef ég ekki það góða þekkingu á öðrum trúarbrögðum. Ég reikna með að hún læri eitthvað um þau í skólanum, allavegana vona ég það. Annars á ég örugglega eftir að grúska eitthvað í því með henni seinna meir því mér finnst líka mikilvægt að hún (og hin börnin mín) læri að bera virðingu fyrir trú annarra þó hún sé ekki hin sama og hennar.
Kveðja,