Sælir samhugarar.
Ég hef mikið verið að spá í umburðarlyndi hjá fólki undanfarið af ýmsum ástæðum sem ég nenni ekki að fara út í hérna í þessari grein.
Er umburðarlyndi bara í genunum eða er hægt að virkja það enn frekar á meðan börn eru ung ?
Ég sjálf kenni mínum börnum að vera með opinn huga, og hlusta og reyna að vega og meta áður en þau fara að æsa sig. Það auðvitað gengur misvel, en yfir höfuð held ég að þau séu mjög góð, eins og öll börn þegar þau eru ung.
Maður fæðist án þess að hata nokkurn skapaðann hlut, og mér finnst mikilvægt að foreldrar ættu að halda því í börnunum eins vel og mögulegt er.
Þetta er auðvitað erfitt þar sem að foreldrar eru mis umburðarlyndir sjálfir, og oft haldnir ýmsum fordómum gegn ýmsum hlutum, sumir þola ekki innflytjendur, aðrir á móti öllum í umferðinni, og enn aðrir (ég) hafa ekki mikið umburðarlyndi gagnvart köngulóm inni í húsinu sínu.

Stelpan mín sá þroskaheftan mann þegar hún var rúmlega þriggja ára, hann labbaði framhjá okkur á Laugarveginum, og svona ung gerði hún sér grein fyrir að hann væri ekki alveg eins og við flest hin, og mér fannst það svolítið athyglisvert. Hún spurði mig á mjög sakleysislegann hátt “mamma .. hvað er að þessum manni” og þetta kom svo flatt upp á mig að ég átti engin svör sem hentuðu 3 ára barni. Ég hreinlega átti ekki von á þessari spurningu frá henni því að hann var ekkert sjáanlega fatlaður.
Ég útskýrði þetta þegar við komum heim eins og ég best gat, og hef útskýrt þetta aftur núna þar sem að hún er eldri.

Börn eru svo yndislegar og hreinar sálir þegar þau fæðast, og þau eiga það skilið að við kennum þeim að njóta þessa heims sem við búum í á sem bestan hátt mögulegann.
Það kemur þeim líka án efa að notum þegar þau eldast að bera virðingu fyrir öllu í þessum heimi og að fordæma ekki.
Kennum þeim að vera góð við dýrin, gefa fuglunum þegar það er kalt og snjór úti, að vera hjálpsöm og bera virðingu fyrir öllu lífi og skoðunum annara. Við munum aldrei sjá eftir því að senda einstaklingana okkar með þetta í veganesti út í heiminn.

Zallý
———————————————–