Eftir að hafa lesið margar greinar og fyrirspurnir hérna, þá ákvað ég að skrifa hérna smá grein fyrir okkur foreldra, sem ég vona að einhver nenni að lesa. Hún er um kenningu í uppeldisfræði, tengist því hvor ætti að sigra þegar árekstrar verða innan fjölskyldunnar – foreldri eða barn. Þegar við lendum í ósætti við börnin okkar reynum við yfirleitt að vinna, okkar skoðun eða skipun er rétt og barnið á að hlýða af því að það er barnið og við erum foreldrarnir. Það á ekki að láta barnið “komast upp með” að “valta” yfir foreldrana og gera það sem það vill, foreldrið er aðilinn sem á að hafa lokaorðið. Þannig hugsa mjög margir foreldrar.
Ég var að lesa bók sem heitir Samskipti foreldra og barna, eftir prófessor Thomas Gordon. Ég ætla að segja ykkur frá hugmyndum hans varðandi svona árekstra.
Okkur er óljúft að lenda í togsreitum og reynum oft í lengstu lög að forðast þær. Togstreitur og árekstar eru hluti af lífinu og eru ekki endilega af hinu illa. Hvort hjónabandið haldið þið að sé betra, hjá þeim sem segjast aldrei hafa rifist eða orðið sundurorða eða hjá hinum sem rífast og tala opinskátt út um hlutina? Það væri eitthvað undarlegt ef að tvær manneskjur gætu lifað saman og þarfir annarrar rækjust aldrei á þarfir hinnar. Fólk er mismunandi, eingar tvær manneskjur eru eins og því hljóta þarfir og óskir þeirra einhverntíman að rekast á. Það sem ég er að reyna að segja er að það er gott að viðurkenna togstreytu og það er gott og þroskandi fyrir börnin að læra að takast á við togstreytu og læra að leysa hana.
Valdabaráttan sem oft vill eiga sér stað á milli foreldra og barna er eðlileg og ætti ekki að líta á hana sem stríð, sem annar aðilinn verður að vinna. Foreldrar láta oft börnin “vinna” þegar þau nenna ekki að “standa í veseni” og leyfa börnunum að haga sér eftir þeirra höfði. Í öðrum tilfellum lætur foreldrið ekki undan, er oft með hótanir eða þvinganir, oft án þess að átta sig á því sjálft!
Hjá foreldrum sem “vinna” elur barnið upp hjá sér gremju í garð foreldranna og lærir ekki að þroska með sér sjálfsaga. Barnið langar ekki til að fara eftir foreldrunum en er neytt til þess. Hin aðferðin, þegar barnið “vinnur” gerir börnin ekki eins uppreisnargjörn, háð, undirgefin o.s.frv. en hún hvetur barnið til að nota vald sitt yfir foreldrunum til að vinna á þeirra kostnað.
Ég gæti skrifað margar blaðsíður um ókosti þessara tveggja aðferða, en ætla að kynna fyrir ykkur þriðju aðferðina, sem gætir hagsmuna beggja, foreldra og barna: taplausa aðferðin!
Þá er málið að koma með lausn á vandamálinu þar sem báðir vinna, viðunandi lausn fyrir báða aðila! Mikilvægt er að tala saman, fá að vita AF HVERJU barninu er svona mikið í mun að gera þetta eða hitt og líka að koma barninu í skilning um ástæður þess að þið viljið því eitthvað annað. Mikilvægt er að gagnkvæmur skilningur ríki, viðhorf beggja komi fram og einhver millivegur sé tekinn þannig að báðir aðilar séu þokkalega ánægðir.
Við gleymum oft að börn eru líka fólk og hafa tilfinningar og skoðanir sem ber að virða, ekki traðka á. Það er annað að aga börnin sín á jákvæðan hátt, en að láta þau alltaf tapa og finnast þau verða undir í sambandi við foreldra sína. Þau eiga heimilið líka, það er ósanngjarnt að segja við þau “ég ræð af því að þetta er mitt heimili.” Hvar eiga þau heima annars staðar en heima hjá sér, og hvar er það heimili ef það er ekki hjá okkur?
Ég vona að einhver hafi nennt að lesa þessa langloku mína og hún hafi vakið einhverja foreldra til umhugsunar. Ég mæli með þessari bók sem ég las um þessar aðferðir, hún fékk mig allavegana til að hugsa…