Það eru ýmsar ástæður fyrir því að sumir foreldrar aga ekki börn sín. Í kenningum atferlisfræðinnar er fjallað um 7 tegundir foreldra. Hvernig foreldri ert þú?
Vonlausa foreldrið
Þetta foreldri heldur að barnið muni aldrei breytast og muni alltaf hegða sér illa. Vonlausa foreldrið hefur gefist upp á barninu sínu og telur tilgangslaust að reyna að aga það. Foreldrar í þessum flokki setja barninu sjaldan fyrirmæli heldur leyfa barninu að fara sínu fram.
Víkjandi foreldrið
Þetta foreldri forðast árekstra og deilur við barnið. Í raun og veru væntir foreldrið þess ekki að barnið hlýði og barnið gerir sér grein fyrir því. Stundum óttast foreldrar í þessum flokki að missa ást barnsins ef gerðar eru einhverjar kröfur til þess. Þessir foreldrar vilja frekar “leyfa barninu” að hafa hlutina eins og það vill frekar en að fá barnið upp á móti sér. Ef barn víkjandi foreldra segir eitthvað eins og “Pabbi og mamma hans Jóa eru miklu betri en þið” geta foreldrarnir brotnað niður því þeir þola ekki höfnun frá barninu.
Orkulitla foreldrið
Sumir foreldrar virðast bara ekki geta safnað þeirri orku sem þarf til að hjálpa virku eða óþægu barni. Dæmi um foreldra í þessum flokki eru t.d. einstæðir foreldrar í fullri vinnu sem hafa hreinlega ekki meira úthald eftir daginn til að glíma við barnið sitt.
Sakbitna foreldrið
Þetta foreldri kennir sjálfu sér um vandamál barnsins og fær oft mikið samviskubit þegar það reynir að aga það. Sjálfsásakanir eða sektarkennd koma í veg fyrir að foreldrar kenni börnum sínum betri hegðun. Sakbitna foreldrið verður eftirlátt og óvirkt í uppeldinu.
Reiða foreldrið
Margir foreldrar eiga erfitt með að hemja skap sitt þegar þeir aga börn sín og fara úr tilfinningalegu jafnvægi. Þar sem þeir geta ekki agað barnið án þess að verða reiðir eða komast í uppnám hafa þeir tilhneigingu til að hunsa hegðun barnsins.
Hindraða foreldrið
Stundum hindrar makinn hitt foreldrið í því að aga barnið. Ef þú þekkir þetta skaltu ræða við makann um æskileg markmið fyrir barnið. Mikilvægt er að foreldrar séu samstíga í uppeldishlutverkinu; að annað foreldrið leyfi ekki eitthvað sem hitt foreldrið hefur bannað. Foreldrar verða að koma sér saman um aðferðir til að aga barnið.
Áhyggjufulla foreldrið
Vandamál í hjónabandinu, fjárhagsáhyggjur og önnur vandamál geta verið foreldrum þung byrði. Foreldri sem sífellt er með áhyggjur er ekki vel í stakk búið til að aga barn sitt og oft vantar þetta foreldri orku, tíma og vilja til að hjálpa barninu sínu. Foreldrahlutverkið er mjög krefjandi verkefni og þess vegna eru til sálfræðingar og aðrir fagmenn sem geta hjálpað foreldrum til að bæta hæfni sína í uppeldishlutverkinu.
Það mikilvægasta sem við getum gefið börnunum okkar er ást og agi. Barnið hættir ekki að elska foreldra sína þótt þeir agi það og kenni því rétta hegðun. Nauðsynlegt er að við foreldrar gefum börnunum okkar skýr fyrirmæli svo þau viti til hvers við ætlumst af þeim. En munið að agi er ekki það sama og refsing; agi er að kenna barninu rétta hegðun, t.d. með rökræðum og útskýringum en refsing er að hegna barninu fyrir óæskilega hegðun sem það hefur sýnt.
Þessu er heiðalega stolið af barnaland.is og kannski margir búnir að sjá þetta. En ég vona ég að það sé í lagi, og mér fannst þetta svolítið merkilegt, kannski afþví ég hef ekki kynnt mér
atferlisfræði neitt og ég hef lesið svo mikið af innleggum frá mæðrum t.d á femin.is sem setja aga og refsingu í sama hatt og líta á að það að setja skýrar reglur og aga á barn sé ekkert annað en ofbeldi, nokkuð sem ég er ósammála.
Öll viljum við að börnin okkar hlýði og fari eftir þeim reglum sem við höfum sett. Við höfum öll okkar eigin uppeldisaðferðir og eflaust virka sumar þeirra vel en aðrar alls ekki. Sumir foreldrar eru mjög strangir á meðan aðrir láta allt eftir börnum sínum og beita aldrei neinum aga. Það er ekki mitt hlutverk að segja ykkur hvað er rétt og hvað er rangt í þessum efnum en mig langaði að deila með ykkur þessari umfjöllun um muninn á aga og refsingu.
Eftirfarandi er tekið líka af barnaland.is
Refsing
Ýtir undir misheppnaða sjálfsmynd barnsins, virkar aðeins í skamman tíma
Er óvænt, refsandinn getur verið ósamkvæmur sjálfum sér, t.d. með því að refsa stundum og stundum ekki fyrir sömu hegðunina. Ef uppalandinn er ósamkvæmur sjálfum sér fær barnið ekki skýr skilaboð um hvort tiltekin hegðun sé rétt eða röng.
Getur verið of ströng í augum samfélagsins.
Fær barnið til að hætta að sýna ranga hegðun en kennir því ekki rétta hegðun í staðinn. Dæmi: Barn sem er lokað inni í herbergi þegar það hefur gert eitthvað af sér veit að það gerði eitthvað rangt en lærir ekki að gera það sem er rétt af því að refsingunni fylgja engar útskýringar.
Þegar barni er refsað getur það valdið reiði, skömm, niðurlægingu, sektarkennd eða einangrun hjá barninu.
Refsing veikir samband foreldra og barns þegar til lengri tíma er litið – barnið fær annað hvort útrás fyrir reiði sína eða dregur sig í hlé. Barn sem á refsandi foreldra lítur óhjákvæmilega á þá sem yfirvald en ekki einhvern sem sýnir því ást og umhyggju.
Refsing getur leitt til þess að barnið þorir ekki að leita til foreldra sinna af ótta við að verða refsað.
Agi
Er nauðsynlegur til að stuðla að sjálfsaga og jákvæðri sjálfsmynd hjá barninu. Barn sem hefur aldrei upplifað aga frá foreldrum sínum á mjög erfitt með að byggja upp sjálfsaga.
Agi er eitthvað sem barnið býst við og kemur ekki á óvart. Foreldrarnir eru búnir að búa til reglur og skilgreina ákveðnar afleiðingar tiltekinnar hegðunar. Dæmi: Ef barn neitar að bursta tennurnar fær það ekki nammi á laugardögum. Svona er það bara, þetta er ekki eitthvað sem breytist dag frá degi heldur regla sem barnið þekkir.
Agi er réttlátur og sanngjarn.
Agi styrkir sambandið milli barns og foreldra þegar til lengri tíma er litið.
Agi hefur kennslugildi; þ.e. með því að aga barnið erum við að kenna því hvað er rétt og hvað er rangt. Dæmi: Barn kemur inn og hendir öllum fötunum sínum á gólfið. Foreldri segir: „Heyrðu, svona gerum við ekki. Taktu nú fötin upp úr gólfinu og settu þau inn í skáp.”
Mikilvægt er að gefa barninu tækifæri til að leiðrétta óæskilega hegðun sína og bæta fyrir það sem það hefur gert rangt. Við gerum öll mistök en mistökin eru til að læra af þeim.
Kv. EstHe
Kv. EstHer