Ég varð að fá að segja ykkur svolítið frá mér og mínum. Ég er svo hrikalega montin af litla stráknum mínum að ég varð að fá að tala um hann einhvernstaðar.
Hann er rosalega góður alltaf og grenjar næstum aldrei. Hann hefur verið svolítið pirraður undanfarið, verið með svona nöldur. Hann er bara tæplega 6 mánaða og ég vissi að tennurnar eru að pirra hann eitthvað. Hann er búinn að vera með pirring í gómnum síðan hann var rúmlega 3 mán.
Í fyrradag vorum við heima hjá afa hans og ömmu og hann var eitthvað óvenjulega pirraður og rellinn. Hann var þreyttur eins og hann er venjulega þegar við komum þaðan, því hann sefur lítið þar. Um kvöldið þegar hann var að fara að sofa þá ákvað ég að bera krem á gómana hans svo hann svæfi betur. Og viti menn, var ekki komin upp ein lítil tönn :) Það var ástæðan fyrir pirringnum. Ég hélt að hann yrði mikið ergilegri og fengi hita eins og er algengt, en nei hann bara fékk tönn si svona með smá nöldri.
Hann er alger hetja þessi elska, og rosalega duglegur. Hann er búinn að fara í 2 sprautur, í 3 mán skoðun og í 5 mán. skoðun og hann grenjaði ekki þegar hann var stunginn einu sinni. Enginn hiti, pirringur eða neitt. Bara sami rólegi litli strákurinn.
Úff ég hlýt að hljóma hræðilega montin og leiðinleg en ég varð að fá að segja einhverjum frá þessu, því þessi litli kútur er mitt fyrsta barn á gamals aldri. Takk fyrir þolinmæðina við mig.