Ég á mér eitt alveg yndislegt uppáhaldslag og það er Lítill drengur sem er að ég held alveg örugglega ljóð Vilhjálms heitins Vilhjálmssonar við lag Magnúsar Kjartanssonar.
Ekki einasta er þetta vel ort ljóð (stuðlar, rím, höfuðstafir) heldur er þetta svo einlægt og fallegt.
Í fyrsta erindi er höfundur fullur lotningar gagnvart stækkandi barni sínu og ber í brjósti þá von að það þurfi ekki að kynnast vonsku heimsins. Í öðru erindi er sektarkennd og söknuður allsráðandi. Gæti verið helgarpabbi en einnig útivinnandi foreldri sem saknar barnsins síns. Viðlagið er einstaklega sætt og það kannast allir foreldrar við. Hvernig gremjan yfir því að vera vakinn eldsnemma gufar upp við faðmlag frá litlum hnoðra. Í lokin eru svo hógværar og fallegar fyrirbænir og heillaóskir.
Hér kemur ljóðið (og enn á ný vona ég að ég fari rétt með):
Lítill drengur.
Óðum steðjar að sá dagur
afmælið þitt kemur enn
lítill drengur, ljós og fagur
lífsins skilning öðlast senn
Vildi ég að alltaf yrðir
við áhyggjurnar laus sem nú
en allt fer hér á eina veginn
í átt til foldar mjakast þú.
Ég vildi geta verið hjá þér
veslings barnið mitt
umlukt þig með örmum mínum
unir hver við sitt
Oft ég hugsa auðmjúkt til þín
einkum þegar húmar að
eins þótt fari óravegu
átt þú mér í hjarta stað
Man ég munað slíkan
er morgunn rann með daglegt stress
að ljúfur drengur lagði á sig
lítið ferðalag til þess
að koma í holu hlýja
höfgum pabba sínum hjá
kúra sig í kotið hálsa
kærleiksorðin þurfti fá
Einka þér til eftirbreytni
alla betri menn en mig
erfiðleikar að þótt steðji
alltaf skaltu vara þig
að færast ekki í fang svo mikið
að festu þinnar brotni tré
allt hið góða í heimi haldi
í hönd á þér og með þér sé
Man ég munað slíkan…
Eitt það skemmtilegasta við þetta lag er að þótt það sé pabbi sem syngur til sonar getur efnið allt eins átt við um móður til dóttur, afa og ömmu til barnabarns og jafnvel frænda eða frænku.
Yndislegur texti og gullfallegt lag. Syng það oft fyrir litla minn á kvöldin!
Kveð ykkur,