Ég skrifa þessa grein með tvennt í huga. Aðallega vil ég beina því til fólks að í guðs bænum, passið ykkur og sýnið tillitsemi þegar þið keyrið götur sem liggja við skóla og hvað þá heldur leikskóla. Virði hraðatakmarkanir sem eru á þessum svæðum, því þær eru settar af ástæðu. Barnslíf er mikilvægara heldur en að þú komist í bónus fyrir 5.
Síðari ástæðan er sú að ég vil koma þessu frá mér í þeirri veiku von um að konan sem ég ætla að segja frá sjái þetta og hafi það í hjarta sínu að skammast sín.
Ég bý á Akureyri, er sjálf 18 ára nemandi en sé mikið um yngri systur mína sem er 4 ára. Í dag vildi það þannig til að það síðasta sem ég gerði áður en ég fór í vinnuna var að ég fór yfir á Naustatjörn, leikskóla systur minnar að ná í hana. Ég pakka niður dótinu hennar, klæði hana í peysu, skærbleikan pollagalla og set á hana dökkbleika prinsessu hjálminn. Við hjólum af stað, ekki langt að fara þar sem að við búum nú bara hinu megin við götuna. Þegar við komum að götunni segi ég henni að stíga af hjólinu því maður eigi alltaf að reiða hjólið yfir götuna (eins og ég sagði er hún einungis 4 ára stubbur og við erum að vinna í því að kenna henni umferðarreglurnar). Hún lítur með mér bæði til hægri og vinstri, hlustar eftir bílum og leggur svo af stað yfir götuna. Hjálpardekkin á hjólinu festust á kantsteininum, svona þannig að það hikaði þar og þá fer ég að heyra í bíl nálgast, lít til hliðar en það er enginn kominn inn í götuna. Svo ég hjálpa litlu að losa hjólið og lyfti því yfir kantinn. Þarna stöndum við, úti á miðri götu þegar að dökkgrár jeppi kemur á talsvert meiri ferð heldur en 30 km/klst myndi ég telja en ég velti því nú ekki fyrir mér þannig séð. Við erum komnar útá götu og ég svona hnippi í systur mína að reiða hjólið og flýta sér með mér (stóð við hliðina á henni allan tíman) því að það sé að koma bíll og hún skuli halda áfram að reiða hjólið, þar sem ég sá að hún gerði sig líklega til þess að stíga á það þarna þegar ég sagði henni að flýta sér.
Jeppinn er nú farinn að nálgast okkur og ég fer að velta því fyrir mér hvort hann ætli ekkert að hægja niður, ég standi þarna á miðri akreininni hans að labba frá leikskólanum yfir götuna með lítið barn með mér.
Mér hefur aldrei brugðið jafn mikið á ævinni þegar að bílinn sneiddi framhjá okkur á fleygi ferð þar sem við röltum yfir götuna, á þeim stað sem að göngustígurinn endar hvoru megin. Bílstjórinn, dökkhærð kona á miðjum aldri, hafði það ekki í sér að einu sinni hægja niður í eðlilegan hraða áður en að hún sveigði með tilþrifum á þessum líka engum smá jeppa yfir á öfugan vegarhelming og spændi í burtu. Þess má geta að hún var ekki einungis að stofna með þessu lífi systur minnar, sem er mér líkt og dóttir, í stórhættu heldur hafði hún ekki augun á veginum á meðan hún keyrði framhjá okkur á þessum hraða heldur horfði á mig með ófögrum svip.
Ég þurfti bara að fá smá útrás því að ég brotnaði algjörlega niður, ég náði því miður ekki niður bílnúmerinu því ég hefði glöð farið grenjandi niður á lögreglustöð með það í höndunum.
Það er kannski orðið spurning um að keyra þessa örfáu metra yfir götuna, þar sem ég er farin að hallast að því að maður fá ekki þá virðingu sem nauðsynleg sé að gangandi vegfaranda sé sýnd til þess að forða alvarlegu slysi.
Ég vildi bara benda fólki á þetta. Ég fer sjálf mest allt keyrandi og ég veit það að ég er ekki alltaf undir hámarkshraða og ætla ekki að reyna halda því fram. Ég stend þó í þeirri trú um að ég sýni þá tillitsemi til gangandi vegfaranda sem ætlast er til en eftir daginn í dag lít ég á þetta allt öðrum augum, átta mig betur á því af hverju það er 30 kílómetra hámarkshraði á þessum svæðum en ekki 50. . . og ég vildi bara deila þessu með ykkur í von um að fleiri velti þessu fyrir sér og hugsi um það næst þegar þeir keyra óleyfilega hratt framhjá skóla eða leikvelli.