Mig langar að vekja athygli á góðu verkefni hjá samtökunum Barnaheill, en það verkefni ber nafnið “Stöðvum barnaklám á Netinu”. Barnaheill eru samtök sem berjast fyrir réttindum barna og styðja börn sem eru illa stödd. Þessi samtök eru hluti af stærri alþjóðlegum samtökum sem nefnast Save the Children Alliance.

Því miður hefur Netið nefninlega ekki bara jákvæða hluti í för með sér heldur einnig neikvæða. Aukin dreifing og iðnaður í kringum barnaklám er eitt af þeim alverstu. Barnaníðingar nota Netið mikið til að komast í samskipti við hvora aðra og skipta, kaupa, selja og dreifa ýmsum myndum af kynferðislegu ofbeldi gegn börnum, og einnig til að komast í samband við börn.

Barnaheill hefur nú hleypt af stokknum verkefni til að hvetja fólk til þess að gera sitt í að stöðva þennan óhugnað. Á heimasíðu sinni http://www.barnaland.is hafa Barnaheill komið upp tengli þar sem hægt er að tilkynna um barnaklám ef maður rekst á slíkt á netinu, eða veit um eitthvað slíkt. Þessar ábendingar er bæði hægt að gera nafnlaust og undir nafni, hvort sem maður kýs. Barnaheill mun síðan fara yfir ábendingarnar og koma þeim áleiðis til lögreglunnar. Einnig eiga barnaheill góð samskipti við yfirvöld og ýmis félagasamtök og fyrirtæki sem láta sig málið varða. T.d. vinna þau með Inhope, sem eru alþjóðleg samtök sem berjast gegn barnaklámi á Netinu.

Það er mjög mikilvægt að foreldrar og aðrir sem sinna börnum ræði við þau um þær hættur sem geta leynst á Netinu. Krakkar eru oft mjög spenntir fyrir spjallrásum, en þar geta leynst barnaníðingar sem reyna að notfæra sér þessi börn. T.d. ætti alltaf að brýna fyrir börnum að gefa aldrei upp fullt nafn, heimilisfang, síma, skóla, fjölskylduhagi eða annað sem getur hjálpað ókunnugum aðilum að hafa upp á viðkomandi barni. Einnig er mikilvægt að brýna fyrir þeim að fara aldrei á stefnumót við einhvern ókunnugan eftir netspjall. Foreldrar þurfa líka að fylgjast aðeins með hvað það er sem börnin þeirra eru að skoða og gera á netinu, og sjá svolítið með eigin augum hvað er í gangi á t.d. hinum ýmsu spjallrásum sem eru í boði og börnin vilja vera á.

Svo vil ég bara hvetja ykkur öll til að hafa augun opin og ekki hika við að senda inn ábendingu ef ykkar grunar að um barnaklám sé að ræða eða hafið grun um að einhver notandi sé á Netinu í þeim tilgangi að leita að börnum til að misnota. Ég hef sjálf sent inn ábendingu um barnaklám tvisvar sinnum. Það er nefninlega alveg ótrúlegt hvað hægt er að rekast á á Netinu og einnig fær maður ótrúlegustu ábendingar sjálfur um síður sem manni er bent á að skoða, t.d. af fólki á ircinu og í e-mail.

Linkurinn á Barnaheill er einnig hér fyrir neðan í upplýsingakubbnum.

Kveðja
GlingGlo
Kveðja,