Maðurinn minn kemur úr fremur svona íhaldssamri fjölskyldu, mamman meira og minna heimavinnandi alla sína tíð og pabbinn svona voða mikill barnakall en þurfti aldrei að gera neitt heima (og þegar hann er einn heima verða börnin hans að bjóða honum í mat svo hann svelti ekki). Maðurinn minn er í raun jafnréttissinnaður en einhvern veginn hafa hlutirnir þróast þannig að við erum á botnlausu kafi í vinnu heima og heiman. Ég sé um heimilið og vinn 100% vinnu en hann vinnur svona 2-3 tímum lengur á dag í yfirvinnu og sér svo um meiri háttar viðhaldsverk á sunnudögum. Ég þarf hins vegar oftar en ekki að sjá um þrif á bílum, málningarvinnu, og svona minni háttar viðhald. Það er hreint út sagt undantekning ef hann vinnur svona almenn heimilisstörf, s.s. uppþvott, skúringar, því það gefst enginn tími til þess. Þetta væri svo sem o.k. nema hvað ég er hrædd um að drengirnir okkar tveir fái dálítið brenglaða mynd af hlutverkum kynjanna (sá eldri hefur sagt hreint út: “já en mamma þú ert húsmóðirin” þegar ég var að kvarta yfir draslinu í stofunni).
Sérstaklega þegar kemur að barnauppeldinu þá er ég með 99% ábyrgðarinnar. Hann sér um baðið, tannlækninn og klippinguna. PUNKTUR.
Hvernig þróast hlutirnir svona? Er þetta óhjákvæmilegt? Hvernig snýr maður þessu við? Og hvernig kem ég öðru gildismati að hjá drengjunum? Ég ætlaði sko ekki að hafa hlutina svona, þvílík rauðsokka sem ég var á sokkabandsárunum. En þegar farið er að ræða málin þá virðist þetta alltaf enda með að snúast um hver vaskar oftar upp og hver vinnur fleiri stundir utan heimilis.
Jæja, hvað segið þið? Please segið mér að ég sé ekki sú eina í þessari stöðu :)
Kveð ykkur,