Sælt veri fólkið.

Í gær var ég að horfa á bíómynd, sem er ekki frá sögu færandi, en þá fór ég að hugsa sem gerist oft þegar maður er að horfa á bíómyndir sem fjalla um lífið og tilveruna. Ein persónan í myndinni var helgarpabbi og því miður voru nánast öll atriðin með honum og stelpunni sem lék dóttur hans klipt út úr myndinni (sá þau samt á aukapakkanum). Eiginlega öll kliptu atriðin voru um það hvað hann gerði með dóttur sinni þegar hann var með henni og hann spurði alltaf reglulega: Er ekki gaman hjá þér? Stelpan horfði þá alltaf á “pabba” sinn og sagði alla vegana einu sinni: Ég vildi óska þess að við töluðum bara saman.

Þá fór ég að hugsa um þau pabbahelgarbörn sem ég þekki til og hvað þau gera á þessum pabbahelgum? Jú það er farið í bíó, alla vegana einu sinni, eitthvert út að borða (helst á McDonald's eða eitthvað álíka) og það er farið í eitthvað svona skemmtilegt t.d. Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, Tívólíið hjá Smáralindinni eða eitthvað í þeim dúr. Getur verið að allir helgapabbar í heimi fari eftir þessari rútínu?

Auðvitað skilur maður þeirra sjónamið, þeir vilja bara eyða þessum litla tíma sem þeir hafa með barninu á mjög ánægulegan hátt og reyna því að gera eitthvað rosalega skemmtilegt alltaf þegar börnin koma til þeirra. Ég er ekkert að setja út á það sem þessir feður gera því að ég skil vel hvers vegna þeir gera þetta og ég held að í flestum tilfellum skemmti börnin sér líka bara mjög vel með feðrum sínum (sem er líka ætlunin).

En ég fór að velta því fyrir mér hvort að helgarpabbar væru aldrei með svona “bara ekkert að gera helgi” með börnum sínum? Því að tilgangurinn með svona pabbahelgum er að halda eðlilegu sambandi við pabbann eftir skilnað og er mjög mikilvægur fyrir börnin jafnt og feðurna. En gæti það verið að margir feður hugsi of mikið um skemmtunina sem barnið á að upplifa um þessa helgi(eins og pabbinn í myndinni) í stað þess að stoppa bara og hafa letidaga heima og ræða bara við barnið um heima og geima?

Kveðja
Silungu