Ég á rúmlega 3 mánaða sólargeisla sem er hreinlega að gera út af við mömmu sína. Eldri bróðir hans er líka stanslaus orkubolti og ég er löngu búin að greina hann sem “kraftmikið barn” (spirited child) en hann var samt eins og generalprufa fyrir þennan.
Týpískur sólarhringur er þannig hjá þeim stutta
Kl. 21-21.30 sofna ég eftir að hafa hangið eins og heftiplástur á brjóstinu á mömmu í 2-3 klst.
Kl. 01-02 vakna, fæ brjóst, sofna
Kl. 03-04 vakna, fæ brjóst, sofna
Kl. 05-06 vakna, fæ brjóst, sofna (yfirleitt, ekki alltaf)
Kl. 06-07 vakna, glaðvakna, fara á fætur takk fyrir.
Kl. 08 brjóst í klst., sofna stundum í hálftíma
Kl. 9.30 brjóst, vaka, leika sér, spjalla við mömmu
Kl. 10 grautur, ávaxtamauk, brjóst í eftirrétt. Sofna stundum í hálftíma
Kl. 11 brjóst í klst. (dorma á meðan)
Kl. 13 brjóst í klst. sofna stundum í hálftíma, ef mamma er heppin allt að því klst.
Kl.14-15 brjóst, vaka, leika sér, spjalla, fá svo ávaxtamauk
Kl. 16-17 brjóst í klst. (dorma á meðan)
Kl. 17-19 mamma fer í búðir/ útbýr mat, pabbi leikur við mig á meðan
Kl. 19-19.30 garga og góla á meðan fjölskyldan borðar
Kl. 19.30-20 borða graut, fara í bað, fara í náttföt, leika smá við pabba og stóra bróður
Kl. 20-21/21.30 liggja á brjóstinu á mömmu þangað til ég sofna.
Er það virkilega eðlilegt að barnið þurfi minni svefn en mamman? Ég er ekki að leita að ráðum (búin að prófa allt, og þá meina ég allt). Ég er að leita að þjáningarsystkinum!
Barnið hlýtur auðvitað að læra meira en önnur börn, hann vakir svo mikið og fær svo mikla örvun. Hann er stór eftir aldri, 7,5 kíló og 65 cm, kominn með tvær tennur, löngu farinn að grípa hluti, byrjaður að velta sér og ég bíð bara eftir að hann standi upp og labbi af stað. Hann neitar að sofa í vagninum, neitar að vera í vagninum meðan mamma labbar (ekki nógu mikið fjör) svo ég fæ enga hreyfingu, enga líkamsrækt og er að verða brjáluð á aukakílóunum sem sitja sem fastast.
Hann er fullkomlega heilbrigður, engin eyrnabólga, engin magakveisa. Ungbarnaeftirlitið er alveg í skýjunum yfir því hvað hann dafnar vel og á duglega mömmu og liggur við að þau setji broskalla í skýrsluna hans.
Svo hljómar þetta eins og ég sé vanþakklát. Barnið er heilbrigt og sprækt, hvað vil ég hafa það betra? Jú ég þakka guði fyrir þennan litla engil og ég elska hann út af lífinu en ég er orðin svo ÞREYTT!
Svo þið sem eigið litla engla sem sofa í 3-4 stundir og vakna bara til að borða, ÞIÐ VITIÐ EKKI HVAÐ ÞIÐ HAFIÐ ÞAÐ GOTT!
Kveð ykkur,