Barnið hrist til bana
Ég rakst á þessa frétt á Visi.is núna áðan og ég varð að posta henni hingað
——————————————————————
Barnið hrist til bana
Rannsóknardeild lögreglunnar í Kópavogi er með til rannsóknar lát níu mánaða gamals barns sem lést í maí síðastliðnum. Grunsemdir vöknuðu um að lát þess hefði ekki borið að með eðlilegum hætti.
Drengurinn var fluttur meðvitundarlaus á spítalann tveimur dögum áður eða þann 2. maí. Við rannsókn lækna spítalans komu fram einkenni sem gátu bent til þess að um væri að ræða skemmdir á heila er gætu stafað af utanaðkomandi atvikum, t. d. vegna hristings, það er tilfelli sem nefnt hefur verið “shaken baby syndrome”.
Vegna þessa hóf lögreglan þá þegar frumrannsókn á tildrögum andlátsins að því marki sem unnt var og fyrirliggjandi gögn gáfu þá tilefni til. Jafnframt var farið fram á að ítarleg læknisfræðileg rannsókn færi fram á dánarorsök barnsins.
Mjög umfangsmikil réttarmeinafræðileg rannsókn hófst strax eftir andlát barnsins í þeim tilgangi að leiða nánar í ljós dánarorsök. Rannsóknin var í höndum réttarlækna Rannsóknarstofu Háskólans sem leituðu liðsinnis ýmissa sérfræðinga.
Þann 6. þessa mánaðar fékk lögreglan í hendur niðurstöður umræddra rannsókna, krufningsskýrslu sem er studd læknisfræðilegum gögnum, sem styrkja þann grun að dánarorsök hafi verið af völdum hristings eða áðurnefnt “shaken baby syndrome”.
Með tilliti til niðurstöðu rannsóknar réttarlækna var ljóst að grunur beindist að þeim aðilum sem önnuðust barnið þann 2. maí, daginn sem komið var með það á sjúkrahúsið í Fossvogi.
Um er að ræða karlmann og konu sem önnuðust daggæslu í heimahúsi og var fólkið handtekið þann 10. september. Daginn eftir var konan látin laus en lögð fram krafa í Héraðsdómi Reykjaness um gæsluvarðhald yfir manninum.
Þann 12. september var maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald til mánudagsins 17. sama mánaðar og þann dag var lögð fram krafa um framlengingu gæsluvarðhalds en Héraðsdómur Reykjaness synjaði þeirri kröfu og var maðurinn látinn laus. Játning á meintu broti liggur ekki fyrir.
Rannsókn er haldið áfram og er að því stefnt að gögn málsins verði innan tíðar send Ríkissaksóknara til umfjöllunar.
——————————————————————
Ég skil einfaldlega ekki hvernig fólk hefur þetta í sér að hrista börn svona. Svona fólk á ekki að fá að ganga laust!
Þetta er svona Lousie Woodward dæmi :/