VII. Eldi ungbarna.
Brjóstabörn.
18.Það er siðferðisleg skylda hverrar móður að hafa barn sitt á brjósti, nema heilsa banni að dómi læknis, en það er mjög sjaldgæft.
Látið ljósmóðurina kenna yður vandlega að hirða á yður brjóstvörturnar og alla aðferð við að leggja barnið á brjóst.
19.Þegar að móðir og barn hafa hvílzt vel eftir fæðinguna (eftir 7-12 klst), er barnið lagt á brjóst í fyrsta sinn. Oft nær barnið ekki í neitt í fyrstu skiptin sem það sýgur. Það kemur ekki að sök, því að barnið þarf enga næringu fyrsta sólarhringinn.
En ef það er óvært eða dauft kemur ekki að sök að gefa því fáeinar skeiðar af sykurvatni. Ef að lítil mjólk kemur í brjóstin næstu dægur má væta barnið áfram með sykurvatni, en gæta verður þess að leggja það jafnan á brjóst áður.
Sé mjólkurframleiðslan áfram af skornum skammti eykst hún venjulega ef að móðirin gætir þess að leggja barnið ávallt á brjóst, jafnskjótt og fylling kemur í brjóstin, þótt hún verði á stundum að vekja barnið til að drekka.
20.Meðan mjólkin er af skornum skammti, er barnið látið sjúga 6-7 sinnum á sólarhring á 3 klst. fresti. En jafnan á móðurinni að vera tryggð 7-8 klst. óslitin hvíld að nóttunni. Jafnskjótt sem mjólkin er orðin næg, er máltíðum fækkað niður í 5 á sólarhring og þær látnar fara eftir fastri reglu, t.d. þannig: kl.6, 10, 14, 18 og 22. Á nóttunni á barnið alls ekki að sjúga. Sé það óvært á að skipta á því en nægi það ekki má gefa því lítið eitt af sykurvatninu. Langsamlega flest börn una þessum reglum vel, og séu látin sjálfráð, taka þau þennan hátt upp nokkurra vikna gömul. En til eru undantekningar sem krefjast styttra bils á milli mála, 21/3 klst., einkum seinni hluta dags, en þá er mjólkin oft minni í móðurinni en árdegis. Þegar svo er verða þær reglur að víkja fyrir þörf barnsins, enda ber frekar að líta á þær sem leiðbeiningu en lögmál.
21. Flest börn ljúka sér af að sjúga á 10 mínútum. Sé móðirin lausmjólka nægja jafnvel 7-8 mínútur. Einstök börn þurfa þó 15 mínutur til að fá sig södd.
Sé svo að barnið geti ekki lokið sér af á 15 mínútum er betra að fjölga máltíðum um eina frekar en að láta það liggja við brjóstið lengur í senn. Munið að þurrmjólka brjóstið alltaf eftir að barnið er hætt að sjúga!
22.Ungbörn eiga að vera á brjósti ekki skemur en 6 mánuði og ekki lengur en 9 mánuði. Gefizt ekki upp við að hafa barnið á brjósti, þó að mjólkin minnki til muna þegar þér er farið að hafa meira fyrir eftir sængurleguna. Það lagast alltaf aftur ef að barnið er lagt reglulega á brjóst.
Svona hélt þetta áfram margar blaðsíður .. allskyns “kjaftæði” og reglur, ég er steinhissa að greyjið hafi ekki dáið úr næringarskorti!
Vonandi afsakið þið þessa langloku, en mér fannst þetta hálf fyndin lesning :)
———————————————–