Einnig finnst mér algegnara að það sé viðurkennt og ekki talið skrítið að vera með barn lengur en 12 mánuði á brjósti, en þetta þótti nú í meira lagi furðulegt og eiginlega bara hálfsóðalegt hér einu sinni. Samt er þetta í raun afskaplega eðlilegt og frá hendi náttúrunnar er þetta mjög góð leið til að tryggja barninu einhverja næringu (þó deilt sé um kosti hennar eftir 6-12 mánuði). Ég veit allavegana að hjá einhverjum frumbyggjaættbálki í Afríku eða Asíu þá eru börn að meðaltali höfð á brjósti í ca fjögur ár og þetta er einnig sá tími sem að meðaltali líður á milli þungana hjá sömu konunni. Þarna þjónar brjóstagjöfin tvennum tilgangi: næring og náttúruleg getnaðarvörn (ekki samt treysta á brjóstagjöfina sem getnaðarvörn stelpur, hún virkar ekki alltaf).
Það er samt ekki allsstaðar sem brjóstagjöfin er litin svona eðlilegum augum. Í Bandaríkjunum, þessari miklu og upplýstu þjóð (*hóst*) eru margir sem líta á brjóstagjöf sem dónalega og sóðalega og sums staðar er meira að segja bannað með lögum að gefa brjóst á almannafæri (það þurfti nú Bandaríkjamenn til að sjá eitthvað perralegt við barn á brjósti). Það eru meira að segja til samtök sem berjast gegn brjóstagjöf á þeim forsendum að þetta geti brenglað barnið kynferðislega og ég veit ekki hvað og hvað. Afleiðingin er sú að það er oft stór ákvörðun fyrir konuna hvort hún eigi að vera með barnið á brjósti eða ekki. Sumar taka reyndar þá ákvörðun að mjólka sig og gefa barninu brjóstamjólkina úr pela, það er ekki eins dónalegt sko. Sú kynslóð sem er að eignast börn í dag er þó hlynntari brjóstagjöf en kynslóðin á undan og einnig er heilbrigðisstefnan sú að hvetja til brjóstagjafar. En þetta er stundum heitt deilumál og þið getið ímyndað ykkur ef mamma ykkar væri stanslaust að tala um galla brjóstagjafar og reyna að fá ykkur til að hætta þessum dónaskap. Það myndi svona ekki beint hvetja mann til að halda brjóstagjöfinni áfram, sérstaklega ef maður ætti í einhverjum byrjunarerfiðleikum með hana eins og er svo algengt.
Hér á landi var nú í denn ekkert fínt að gefa brjóst og ríkari konur fengu sér kannski brjóstamóður, sem var yfirleytt kona af lægri stétt sem sjálf var nýbúin að eignast barn og því með mjólk í brjóstunum. Þegar mamma var ung, svona í kringum 1970, voru strangar reglur um hvernig ætti að gefa brjóst; bara á fjögurra tíma fresti og ekki lengur en 10 mín til kortér í einu. Sem betur fer var mamma skynsöm kona og var ekkert að hlusta á svona bull og gaf okkur systkinunum bara brjóst þegar við vorum svöng. Í dag á allt að vera sem náttúrulegast og eðlilegast og það er bara hið besta mál. Hver og en kona verður þó bara að finna út hvað hentar henni og barninu hennar best.
Kveðja,