Sæl öll sömul.

Ég á litla frænku sem er nýlega orðin 3 ára og hún er mikil dúkkukona eins og margar hnátur á hennar aldri. Svo þar sem hún er svona hrifin af dúkkum var tilvalið að gefa henni dúkku í afmælisgjöf. Þegar hún var eins og hálfs árs gaf ég henni dúkku í jólagjöf sem grét ef tekin var úr henni snuðið, litla frænka mín tíndi snuðinu á milli jóla og nýárs svo sú dúkka grét í 2 sólahringa og hefur ekki sést síðan! Þess vegna ákvað ég að velja svona gamaldags dúkku sem væri með mjúkan maga, ekkert hár, falleg og hún átti ekki að segja eða gera neitt. Þegar ég var á hennar aldri hérna fyrir 20 árum síðan hefðu þessar kröfur mínar til dúkkunnar orðið til þess að ég hefði úr vöndu að ráða þar sem nærri hver einasta dúkka hefði flokkast undir þessa ósk mína. En það var annað uppi á teningnum í dag!

Hér upphófst mánaðarleit sem fór meira að segja fram á erlendum vígstöðvum þar sem ég brá mér til útlanda. Alls staðar þar sem ég kom voru dúkkur sem voru alveg úr plasti, grétu, hlógu, sögðu mamma og pabbi og guð má vita hvað þær gerðu ekki. En enginn gerði bara ekki neitt! Í einni búðinni sem ég var í (þá í útlöndum) var mikið úrval og ég varð viss um að þessi búð væri rétti staðurinn. Ég gekk að dúkkunum sem flestar voru með snuð svo ég fór að prófa þær, tók úr snuðin og viti menn þær grétu. Ein var ekki með snuð en ég var náttúrulega búin að leita í mánuð svo ég var komin með nokkurskonar próf í þessu, þannig að ég vissi að þó hún væri ekki með snuð væri mjög líklegt að hún gæti samt eitthvað. Ég ýtti á magann á henni og hún fór að gráta. Þá kom afgreiðslustúlkan til mín og bauð fram aðstoð sína. Ég spurði þá hvort hún ætti ekki dúkku sem gréti ekki? Jú hún átti dúkku sem hló. Ég var ekki ánægð með það svar og spurði hvort hún ætti ekki dúkku sem segði ekkert? Jú það átti hún, mjög stolt sýndi hún mér Barbeidúkku! Ég vildi hana heldur ekki og sagði að þessi dúkka væri fyrir litla stelpu. Þá sýndi hún mér þjóðbúningardúkku sem leit ekki út fyrir að vera gerð fyrir dúkkuleiki svo ég sagði nei þessi virkar engan veginn. Aumingja afgreiðslustúlkan vissi ekki hvað var að sínum dúkkum þar sem þær voru eflaust draumur hverra stúlku en ég var ekki á því máli.

Leitin hélt því áfram og ég veit ekki hversu margar dúkkur ég skoðaði en þær voru allar svo fullkomnar að ég væri ekki hissa á því að dúkkur færu að tala fullar setningar bráðlega án þess að maður ýti á einhverja takka!

En loksins fann ég dúkkuna sem ég var að leita af og hún fannst í Dótabúðinni í Kringlunni (en þar sem ég bý ekki í Reykjavík er ég ekki þar á hverjum degi). Ég var ekkert smá glöð þegar ég fann fallega dúkku sem var í réttri stærð og allt sem getur ekki gert neitt annað en barnið ímyndar sér!

Þegar ég kom í afmælið með fallega bleika pakkann minn sagði frænka mín að hún hefði fengið dúkku í dag og þessi dúkkar grætur!!! Ég óskaði henni til hamingju með nýju dúkkuna og daginn og rétti henni pakkann frá mér. Hún opnaði pakkann og varð ekkert smá glöð, enda fékk hún tvær dúkkur þarna á mjög skömmum tíma! Hún misti málið um stund og vissi ekkert hvernig hún ætti að haga sér!?!
Hin dúkkan sem gat grátið gat ekki bara grátið heldur líka hlegið og ofan á allt verður hún að sofa við myrkur annars grætur hún alla nóttina!

Eftir þetta allt saman fór ég að hugsa hvað hefði eiginlega orðið um þessar gömlu góðu dúkkur sem var svo gott að hjúfrra sig upp að og gerðu ekkert? Einnig er nánast öll leikföng farin að gefa frá sér einhver hljóð, það er ekki lengur hægt að púsla nema það komi hljóð! Hvað varð eiginlega um leikföngin sem voru skapandi og létu barnið sjálft ráða öllu? Hvers vegna skildu þessi leikföng vera svona vinsæl núna? Börnin fá virkilega aldrei frið fyrir hávaða lengur sem mér finnst svolítið ömulegt. Það er alltaf verið að tala um að börn séu ekki eins hugmyndarík í dag eins og þau voru hérna áður fyrr, gæti það ekki verið vegna þess að leikföngin þeirra eru nánast fullkomin? Auðvitað fannst mér og finnst enn dúkkurnar mínar fullkomnar, en ég lét þær sjálf gráta, hlægja, segja hvað sem þær þurftu að segja og átti aldrei í vandræðum með að vera með of lítið hugmyndarflug. Meira að segja bílarnir mínir töluðu og borðuðu. Ég held að það vanti meira af leikföngum sem líkjast þeim sem voru hérna áður, leikföngum sem gera ekkert eða eins og afgreiðslustúlkan í útlöndum sagði eru leiðinleg. Þau eru samt ekki leiðinleg að mínu mati örfa þau meira enn þau sem gera eitthvað sjálf.

Kær kveðja
Silungu