Mig langaði bara aðeins til að segja ykkur frá hvernig er að ala upp barn í Danmörku.
Það eru náttúrlega bæði slæmar og góðar hliðar á því hvernig hlutunum er háttað hérna fyrir barnafólk.
Þar sem ég fæddi ekki barnið mitt hérna úti þá veit ég lítið um þann hluta en ég veit að allar mæður yngri en 25 ára fá sérstaka stuðningshjálp (t.d frá öðum mæðrum) og aukna fræðslu af því þær teljast í raun til “ungmor”.
Svo fara allar konur í svokallaða mæðragrúppu sem samanstendur af mæðrum sem allar hafa átt á svipuðum tíma og voru hjá sömu ljósmóður.
Það getur vel verið að þetta sé nú þegar á Íslandi en ef ekki þá væri gott að koma á fót svoleiðis grúppu.
Ég hugsa að greinin yrði of löng ef ég færi í öll atriði þannig að ég skrifa bara aðra grein.
Leikskólakerfið í Danmörku er ólíkt því íslenska að því leyti að um leið og barn fæðist þá fer það beint inn á biðlista og getur því byrjað 6-8 mánaða á vöggudeildinni (vuggestue) sem er fyrir börn á aldrinum 0-3 ára. Um leið og barnið verður 3ja ára þá færist það sjálfkrafa yfir á leikskólann (børnehaven)þar sem eru 3-6 ára börn, en svo eru líka til aðrar gerðir af leikskóla sem kallast integreret institution sem útleggst á íslensku samþáttuð stofnun en þar eru börn á aldrinum 0-6 ára.
Það eru reyndar ýmsar aðrar dagvistunarleiðir til, t.d dagmæður, frítímaheimili (hálfgerðar félagsmiðstöðvar fyrir börn á aldrinum 6-18 ára), Ung i huset (sem er eiginlega bara au-pair).
Það er möguleiki að fá svokallað frípláss (friplads) en það virkar þannig að ef foreldrar eru t.d einstæðir eða námsmenn og hafa þar af leiðandi litla launaveltu þá er hægt að fá leikskólagjöldin lækkuð og/eða ókeypis.
Þetta er reiknað í prósentu og því hærri prósentu sem maður er reiknaður með því minna borgarðu í gjöld. En þess má geta að leikskólagjöldin eru frekar há, full vöggudeildargjöld eru um 3000 DKK á mánuði en leikskólagjöldin helmingi lægri.
En á móti kemur líka að foreldrum er algjörlega frjálst hvenær komið er með börnin og hvenær þau eru sótt (opnunartímar eru yfirleitt frá kl 06:30-17:00)
Og ólíkt því sem er á Íslandi þ.e.a.s að börnin VERÐA að fara í mánaðarfrí þá er það ekki svoleiðis í Danmörku. Það er nefnilega fullt af sumarafleysingarfólki til að leysa af uppeldisfræðingana (pædagog) og meðhjálparana (pædagogmedhjælper) og Danir vilja að foreldrar taki sumarfrí án barnanna líka. Auðvitað er manni frjálst að láta barnið taka sumarfrí og útaf því er allur júlí mánuður betalingsfri (ókeypis) þannig að foreldrarnir geta skroppið skyndilega í þriggja vikna sumarfrí með börnin án þess að þurfa borga fyrir barnið á meðan.
Margir leikskólar í Danmörku eru orðnir að svokölluðum náttúruleikskólum (naturlegeplads) sem þýðir að allur matur er lífrænn, mikið er lagt upp úr útivist og öll útileikföng samanstanda af trjábútum, gömlum bátum, lækjum, hengirúmum, fuglahúsum og oft eru dýr eins og hænur höfð með sem börnin geta svo gefið að borða og svoleiðis.
Svo er farið 1-2 í viku með börnin í ferðir en það er eflaust líka á Íslandi og svo einu sinni á sumri fer starfsfólkið, börnin og foreldrar til Legolands eða einhvern skemmtigarð og er þá yfirleitt farið á laugardegi.
Jæja, þetta er orðið ágætt en ég vil bara segja að ég miða út frá leikskólanum sem sonur minn er á og er þetta langt frá því að vera tæmandi hvernig leikskólar í Danmörku eru.
Svo eru amtin (sýslurnar) með mismunandi kerfi og ég get ekki verið viss um þetta sé alls staðar svona.
En ástæðan fyrir þessum greinskrifum mínum er bara sú að það eru svo margir sem flytjast til Norðurlandanna og þá sérstaklega Danmerkur og mig langaði bara til að fræða áhugasama um þetta.
En eins og ég skrifaði í byrjun þá er alls ekki upptalið um uppeldi í Danmörku og ef einhver áhugi er fyrir hendi þá get ég frætt ykkur meira um það.
Endilega komið með spurningar sem ég get svo svarað í greininni.
Kveðja,
Pernilla