Ég hef nú reyndar mikið verið að grúska í þessu með kynfræðslu foreldra og hvenær sé heppilegur aldur að byrja á að fræða börnin, hvað á maður að segja og hvernig. Samkvæmt því sem ég hef lesið er æskilegt að byrja snemma, eða strax á leikskólaaldri, að tala um kynlíf við börnin sín og þó að þau spyrji ekki um þetta að fyrra bragði má maður ekki vanrækja þennan hluta uppeldisins. Krakkar velta þessum hlutum mikið fyrir sér og ef þau fá ekki upplýsingar frá foreldrunum þá fá þau bara upplýsingar frá vinum sínum, sem eru oft ekki alveg réttar. Því er mikilvægt að ræða þessi mál til að koma í veg fyrir misskilning og ranghugmyndir sem geta jafnvel verið mjög ógnvekjandi og valdið hræðslu.
Hver man ekki eftir læknisleikjum hér i gamla daga? Börn eru forvitin um sinn líkama og sitt kynferði og það er ekkert óeðlilegt þótt krakkar séu að skoða hvort annað eða að lítið barn fitli við kynfæri sín. Þetta er einfaldlega gott og barnið er bara að uppgötva það. Foreldrar eru oft hræddir um að hegðun barna þeirra sé ekki eðlileg og vita ekki hvernig á að bregðast við. Það ætti ekki að skamma barn fyrir að sýna svona hegðun, þetta er ósköp eðlilegur hluti í þroska þeirra, en auðvitað má útskýra fyrir barninu að svona gerir maður ekki fyrir framan aðra þó að það sé í lagi að gera þetta í einrúmi.
Í Bandaríkjunum er ótímabær þungun unglingsstúlkna mikið áhyggjuefni og þó að ekki séu til beinar rannsóknir um þetta efni hér á landi held ég að við vitum nú flest að hér er ekki svo óalgengt að stúlkur eignist börn snemma á lífsleiðinni. Ef við ætlum okkur að geta rætt við unglinginn okkar um kynlíf seinna meir og kenna þeim að lifa ábyrgu og gefandi kynlífi er mikilvægt að gera kynfræðslu að eðlilegum hluta uppeldisins allt frá barnæsku; það gerir lítið gagn að setjast niður með 14 ára unglingnum sínum allt í einu og ætla loksins að framkvæma þetta s.k. “BIG TALK”. Á þessum aldri eru flestir unglingar sem minnst móttækilegir fyrir því sem foreldrarnir segja, sérsaklega ef þetta efni hefur lítið sem ekkert verið rætt áður.
Einnig er talið mikilvægt að kynfræðslan sé ekki eingöngu í formi boða og banna eða einhverja fyrirlestra frá foreldrunum um hvernig þetta allt sé nú. Svoleiðis “fræðsla” gerir yfirleytt lítið gagn og jafnvel bara æsir enn frekar upp uppreisnina í unglingnum sem gerir þá nákvæmlega allt sem mamma og pabbi vilja ekki að hann geri. Það er langbest að geta skapað umræðu á jafnréttisgrundvelli þar sem barninu/unglingnum gefst færi á að koma með eigin skoðanir og spyrja spurninga.
Við sem foreldrar verum að hafa í huga að það er okkar ábyrgð að fræða barnið okkar, við getum ekki varpað ábyrgðinni yfir á barnið/unglinginn og bara beðið þangað til að þau brydda upp á þessu því það er alls ekkert víst að þau geri það og sérstaklega ekki ef við höfum aldrei opnað umræðuna fyrir þessu efni.
Einnig ber að hafa í huga að það er ekki bara umræða um kynlíf sem skiptir máli, öll almenn samskipti í fjölskyldu skipta mjög miklu um það hvort börn hlusti á foreldra sína og tileinki sér þeirra skoðanir og lífsgildi og beri virðingu fyrir þeim reglum sem gilda í fjölskyldunni. Einnig virkar þetta á hinn veginn; ef samskipti í fjölskyldunni eru góð er einnig hlustað á það sem barnið/unglingurinn segir og skoðanir þess/hans virtar og tekið tillit til þeirra.
Kveðja,